Tilskipun ESB um starfstengdan lífeyrissparnað
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í fjármálaráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga sem ætlað er að innleiða tilskipun ESB nr. 2003/41/EC um starfstengdan lífeyrissparnað (Directive on the activities and supervision of institutions for occupational retirement provision).
Vinna við innleiðingu tilskipunarinnar hefur staðið yfir að undanförnu innan aðildaríkja EES og er hún misjafnlega á veg komin. Hvað Ísland snertir er ráðgert að frumvarp um innleiðingu tilskipunarinnar verði lagt fyrir Alþingi á komandi löggjafarþingi.
Markmið tilskipunarinnar er að gera starfstengdum lífeyrissjóðum fært að bjóða skilgreinda þjónustu yfir landamæri innan EES, stuðla að hagkvæmum fjárfestingum og tryggri ávöxtun, tryggja réttindi sjóðfélaga og annarra rétthafa, auka samkeppni, koma á gagnkvæmri viðurkenningu eftirlitsaðila innan EES og skapa forsendur fyrir öflugri innri markaði fyrir starfstengdan lífeyrissparnað.
Gildissvið tilskipunarinnar tekur til stofnana sem taka á móti valfrjálsum starfstengdum lífeyrissparnaði til myndunar og útgreiðslu lífeyrisréttinda, sem starfa á sjóðmynduðum grunni og eru aðskildar frá þeim fyrirtækjum sem greiða iðgjöld til þeirra.
Í tilskipuninni er tekið fram að gildissvið hennar nær m.a. ekki til þeirra lífeyrissjóða sem samkvæmt skilgreiningu falla undir reglugerð Ráðsins nr. 1408/71/EB, með síðari breytingum, en sú reglugerð á m.a. við um hina hefðbundnu íslensku lífeyrissjóði þar sem þeir hafa verið skilgreindir sem slíkir frá árinu 1994. Með tilskipuninni er því gengið út frá því að forræði einstakra aðildarríkja hvað varðar fyrirkomulag lífeyrismála sé almennt ekki skert og nær það m.a. til skyldubundins framlags til lífeyrissjóða sem og skylduaðildar.