Áhrif samkomulags á vinnumarkaði að koma fram
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Nýlega birti Hagstofa Íslands launavísitölu fyrir júlí. Hækkunin frá fyrra mánuði nam 1,7%. Stærstan hluta af þeirri hækkun má rekja til samkomulags aðila á almennum vinnumarkaði þann 1. júlí sl.
Á myndinni hér að neðan eru sýndar mánaðarlegar hækkanir launavísitölunnar undanfarin ár. Vísitalan hækkar jafnan mest þegar laun hækka hjá stórum hluta vinnumarkaðarins. Undanfarin ár hafa slíkar hækkanir átt sér stað um áramótin. Launahækkanir hafa einnig orðið þegar samkomulag er gert við minni hópa. Hækkanir umfram það eru launaskrið, m.a. vegna starfsaldurs eða einstaklingsbundinna hækkana. Í síðustu þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins voru heildaráhrif af hinu nýja samkomulagi metin á 4%. Lauslegt mat á hækkun á almennum markaði nú er að laun hafi hækkað um 2,5%, sem er í samræmi við það sem búist var við, en reiknað er með að launavísitalan haldi áfram að hækka á næstu 1-2 mánuðum á meðan áhrif samkomulagsins eru að skila sér að fullu. Jafnframt er við búið að dragi úr launaskriði á næstunni.
Á neðri myndinni má sjá 12-mánaða breytingu launavísitölunnar en hún hefur farið hækkandi frá ársbyrjun 2004 og er nú jafn há og hún var á toppi síðustu uppsveiflu. Vegna nýgerðs samkomulags er reiknað með því að draga taki úr hækkuninni. Í síðustu spá ráðuneytisins frá því í júní var reiknað með því að launahækkanir á árinu yrðu rétt rúm 9%. Hinar nýbirtu tölur eru í samræmi við þá spá. Verið er að undirbúa nýja þjóðhagsspá sem verður gefin út 2. október n.k.