Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2006 Innviðaráðuneytið

Rætt um aukið samráð á netinu

Umræðutorg, netspjall og rafrænar kannanir voru umræðuefni á hádegisverðarfundi hjá Skýrslutæknifélagi Íslands í dag. Karl Alvarsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, var meðal ræðumanna og greindi hann frá áformum ráðuneytisins um aukið samráð meðal annars við undirbúning lagafrumvarpa og reglugerða.

Guðfinna B. Kristjánsdóttir, upplýsingastjóri Garðabæjar, sagði frá tilraun bæjarstjórnar Garðabæjar til samráðs við íbúa sem hún sagði góða reynslu af og viðbrögð góð. Arnar Pálsson, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, sagði frá samskiptatorgi ráðuneytisins sem hann segir að komi ekki síst heyrnarlausum vel. Einnig greindi hann frá ráðherraspjalli, samskiptum Árna Magnússonar, þáverandi félagsmálaráðherra, á netinu þegar boðið var uppá umræðu um sameiningu sveitarfélaga á síðasta hausti.

Í kynningu Karls Alvarssonar á áformum samgönguráðuneytisins um aukið samráð kom meðal annars fram að ráðuneytið hefur leitast við að fá umsagnir hagsmunaaðila þegar lagafrumvörp og reglugerðir eru í smíðum. Hefur verið sett á vef ráðuneytisins ábending um að hagsmunaaðilar geti sent ósk um að fá vitneskju um undirbúning mála sem þá varða sem ráðuneytið hefur umsjón með, svo sem flugmál, siglingamál og vegamál.

Björn Guðmundsson, vefstjóri hjá Tollstjóranum í Reykjavík, sagði frá notkun og reynslu embættisins af vefspjalli og Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, kynnti leiðbeiningar um notkun upplýsingatækni við samráð og samskipti opinberra aðila og almennings.

Í lokin urðu nokkrar umræður meðal fundarmanna sem voru kringum 100.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta