Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2006 Dómsmálaráðuneytið

Réttarstaða erlendra kvenna á Íslandi

Nokkrar umræður hafa orðið í fjölmiðlum undanfarnar vikur um réttarstöðu erlendra kvenma hér á landi og hugsanlega brottvísun úr landi vegna skilnaðar þeirra eða sambúðarslita. Af því tilefni hafa dóms- og kirkjumálaráðuneytið og útlendingastofnun tekið saman eftirfarandi lýsingu á gildandi lögum um þetta efni og hvernig staðið er að framkvæmd þeirra.


-Dvalarleyfi af mannúðaraðstæðum, sbr. 2. gr. 11. laga nr. 96/2002.
Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/2002 má veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið.
Ákvæðið er almennt og tekur ekki til fyrirfram ákveðinna hópa þótt því sé í framkvæmd oftast beitt við afgreiðslu hælismála. Ákvæðið getur átt við í tilvikum þar sem einstaklingi hefur verið synjað um dvalarleyfi en aðstæður eru með þeim hætti að beiting 2. mgr. 11. gr. á við. Almennt orðalag ákvæðisins veitir svigrúm til að víkja frá skilyrðum útlendingalaga við sérstakar aðstæður. Ákvæðið hefur m.a. verið túlkað svo að þar eigi undir útlendingar sem búsettir hafa verið á Íslandi til lengri tíma, skyndileg alvarleg veikindi náins aðstandanda útlendings eða ófyrirsjáanleg atvik sem leiða til þess að útgáfa dvalarleyfis telst nauðsynleg á grundvelli sérstakra tengsla viðkomandi eða mannúðar.
Synjun á dvalarleyfi og almennt um brottvísun.
Þegar útlendingi, sem dvelst á landinu, er synjað um dvalarleyfi á Íslandi, fær hann tilkynningu þess efnis að honum sé gert að fara af sjálfsdáðum af landi innan ákveðins tíma. Ekki kemur til formlegrar ákvörðunar Útlendingastofnunar um brottvísun á grundvelli 20. gr. laga nr. 96/2002 fyrr en ljóst er að viðkomandi útlendingur hefur ekki farið úr landi af sjálfsdáðum án þess að gefa á því viðunandi skýringar. Þá er send formleg tilkynning um væntanlega brottvísun og viðkomandi útlendingi gefið tækifæri til að senda stofnuninni athugasemdir sínar innan ákveðins frests. Ákvörðun um brottvísun er aðeins tekin að því tilskyldu að málið sé nægjanlega upplýst og nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir.
Útlendingar sem koma til Íslands á grundvelli hjúskapar en skilja við maka sinn vegna heimilisofbeldis.
Aðstæður útlendings, sem kemur til landsins á grundvelli hjúskapar, og leiðir dvalarleyfi sitt af hjúskapnum, en skilur við maka sinn vegna heimilisofbeldis, geta verið með þeim hætti, að stjórnvöldum beri að skoða hvort veita eigi dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Hvert mál verður að meta sérstaklega. Hér skiptir m.a. máli að skoða aðstæður viðkomandi í heimalandi og tengsl við Ísland. Þá er grundvallarforsenda að málavextir séu kynntir Útlendingastofnun. Án upplýsinga um atriði, sem kunna að skipta verulegu máli fyrir útlending, er ekki unnt að taka tillit til sérstakra aðstæðna við afgreiðslu máls hans.
Af því, sem hér er sagt, má ráða, að við þær aðstæður, sem lýst er, verði útlendingi ekki gert að fara úr landi, meti Útlendingastofnun aðstæður hans á þann veg, að unnt sé að veita honum dvalarleyfi skv. 2. mgr. 11. gr. vegna tengsla við landið eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum