Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2006 Innviðaráðuneytið

Umtalsverðar tekjur af 190 komum skemmtiferðaskipa

Um það bil 190 erlend skemmtiferðaskip koma til landsins í sumar. Skipin hafa flest viðkomu í Reykjavíkurhöfn en mörg koma einnig við á einni eða tveimur öðrum höfum landsins. Gera má ráð fyrir að tekjur vegna hafna- og vitagjalda séu ekki undir 130-150 milljónum króna og ferðamenn sem í land koma eru taldir verja 300-500 milljónum króna í vörur og þjónustu. Hér er hver koma skips til hafnar talin einu sinni; sum skipin koma oftar en einu sinni og sum til fleiri en einnar hafnar.

Skemmtifsk.
Skemmtiskip í Ísafjarðarhöfn. Mynd Halldór Sveinbjörnsson.

Ferðamenn sem með skipunum koma eru taldir versla fyrir um 320 milljónir króna sé aðeins litið til þeirra sem koma til hafnar í Reykjavík sem voru í fyrra kringum 55 þúsund. Auk þess fara margir farþegar í skoðunarferðir.

Alls verða komur skemmtiferðaskipa til ofangreindra hafna á landinu í ár kringum 190. Gert er ráð fyrir að 77 skip komi til Reykjavíkur og er það sami fjöldi og í fyrra. Til Akureyrar koma 53 skip, til Ísafjarðar 22, Grundarfjarðar 10, Vestmanneyja 11, Húsavíkur 3, Reykjanesbæjar 9 og Seyðisfjarðar 5. Flest skipin hafa viðdvöl í Reykjavík og sum einnig í einni eða tveimur öðrum höfnum. Einstaka skip kemur þó til dæmis til Akureyrar án þess að hafa viðdvöl í Reykjavík.

Hafnargjöld af hverju skipi í Reykjavík ráðast af stærð þess og geta verið á bilinu 500 þúsund krónur til ein milljón. Gjöld fyrir Queen Elisabeth II eru þó mun hærri eða kringum þrjár milljónir.

Ágúst Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, hefur um árabil sinnt markaðsstarfi sem beinst hefur að útgerðum skemmtiferðaskipa eða farþegaskipa. Hefur hann í meira en áratug sótt ferðakaupstefnu þessara aðila sem árlega er haldin í Miami á Flórída þar sem útgerðarfyrirtæki kynna sér áhugaverða staði í ferðaheiminum. Þá ráðgerir hann að sækja í haust ferðakaupstefnu á Ítalíu til að kynna útgerðum sem gera út frá Miðjarðarhafinu það sem Ísland hefur uppá að bjóða.

Skipulögð markaðssókn

Markaðsstarfið er sameinað undir merkjum Cruise Iceland og er Ágúst formaður samtakanna. Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálastofu í Bandaríkjunum, hefur einnig unnið mikið að þessu markaðsstarfi. Einar segir að markmið Cruise Iceland sé að laða fleiri skemmtiferðaskip til landsins með skipulagðri markaðssókn. Hann segir skipin fara sístækkandi og um leið verði þau hraðskreiðari og stöðugri.

,,Við höfum lagt mikla áherslu og vinnu í að kynna skipafélögunum hringferðarmöguleika um Ísland þar sem skipin yrðu við Ísland sumarlangt og færu hringinn í kring um landið á einni viku með gesti sína,” segir Einar. ,,Siglt yrði á nóttunni og nýr spennandi áfangastaður biði gestanna á hverjum morgni. Þetta þýddi meðal annars að farþegaskipti ættu sér stað á Íslandi og jafnvel áhafnaskipti líka og myndu þá allar tekjutölur okkar margfaldast með tekjum af flugi og fólki sem lengdi dvöl sína hér á undan og eftir siglinguna.”

Þá segir Einar að byggja þurfi upp hafnarmannvirki og aðstöðu í sumum höfnum, til dæmis þurfi farþegamiðstöð við Reykjavíkurhöfn til að unnt sé að veita farþegum viðunandi þjónustu. Einar tilgreinir einnig nokkur atriði sem útgerðir skemmtiferðaskipa horfa til þegar ferðir skipanna eru skipulagðar. ,,Það er til dæmis að landið sé vinsælt ferðamannaland og að allir innviðir séu í lagi en þá erum við að tala um þjónustu og alla umsýslu við ferðamanninn. Síðan að áfangastaðurinn sé öruggur, að gott úrval ferða sé í boði, að gott sé að versla á staðnum og að áfangastaðurinn fái góða einkunn meðal farþega. Öll þessi atriði skipta miklu máli í þessu sambandi.”

Kynna landið – ekki bara hafnir

,,Markaðsstarfið gengur út á það að kynna landið og í mínu tilviki legg ég einkum áherslu á Reykjavík og nágrenni hennar, Gullfoss og Geysis-hringinn, Bláa lónið og fleira í þeim dúr. Við fulltrúa útgerðanna ræði ég líka sérstaklega og kynni þeim aðstöðu okkar, viðlegukanta, dýpi og þjónustu, alla hafnaraðstöðu sem Faxaflóahafnir hafa yfir að ráða,” segir Ágúst Ágústsson og telur hann Ísland enn eiga mikla vaxtarmöguleika á þessu sviði. ,,Það er í raun ekki vandamál hjá höfnunum að taka á móti skipunum. Vandinn felst í því ef sinna þarf kannski fjögur þúsund ferðamönnum sama daginn sem vilja fara dagsferðir út frá Reykjavík, þá er hart á því að nógu margar rútur og nógu margir leiðsögumenn fáist,” segir Ágúst og nefnir að svipaður vandi geti verið uppi á teningnum á Ísafirði og Seyðisfirði þegar stór skip hafa þar viðdvöl. Telur hann að ferðaþjónustan verði að huga að því hvernig hún mætir álagstoppum í þessum efnum.

Ágúst Ágústsson hefur einnig hugmyndir um hvernig laða mætti hingað fleiri farþegaskip og segist hann þá einkum horfa til þriggja sviða. ,,Þetta eru lúxussnekkjur, ekki mjög stór skip en snekkjur í eigu auðmanna sem ferðast um heiminn og hafa kannski til þessa einkum haldið sig á suðrænum eða heitum slóðum. Þá getum við áreiðanlega gert meira til að laða hingað fleiri skútur en í sumar hafa komið hingað milli 30 og 50 skútur sem sumar liggja í Reykjavíkurhöfn í eina tvær vikur en aðrar dvelja styttra og sigla hringinn. Þriðja sviðið er síðan skemmtibátarnir en þeim fer sífellt fjölgandi sem sigla um heiminn á betri bátum, menn hafa meiri tíma og meiri fjárráð og þarna sé ég fyrir mér ýmis tækifæri,” segir Ágúst og kveðst geta bætt við stórum seglskipum, skólaskipum eða farþegaskipum sem væri gaman að fá hingað til lands í auknum mæli.

Stærsti einstaki tekjuliður Akureyrarhafnar

Pétur Ólafsson, staðgengill hafnarstjóra á Akureyri, segir að komum skemmtiferðaskipa til Akureyrar hafi farið mjög fjölgandi síðustu árin. Árið 2001 voru komurnar 28, 35 árið eftir, árið 2004 53 og 56 í fyrra. Alls var búist við 57 skipum í sumar en Pétur segir ljóst að þeim fækki í 53. Farþegafjöldinn hefur að sama skapi aukist eða úr 17.500 árið 2001 í 40 þúsund í fyrra. Spáir hann því að árið 2010 muni um 60 þúsund farþegar koma með skemmtiferðaskipum til Akureyrar.

Pétur segir að í fyrra hafi tekjur af komum skemmtiferðaskipa verið stærsti einstaki tekjuliður hafnarinnar og að svo verði einnig í ár. Segir hann tekjurnar á bilinu 38 til 40 milljónir króna. Þar fyrir utan fer um 70% farþeganna í skoðunarferðir í Mývatnssveit og víðar um Norðurland og margir versla í bænum. Pétur segir skipin sífellt stærri og segir hann að samfara auknum farþegafjölda geti reynst snúið að annast þörf fyrir skoðunarferðir. Sé hart á því að hægt sé að fá nógu marga leiðsögumenn, ekki síst í ákveðnum tungumálum og hann segir rútukost mega vera betri. Þetta eigi þó aðeins við þegar til dæmis tvö skip séu í höfn sama daginn og um 2 þúsund manns vilji fara í skoðunarferð.

Pétur segist ekki líta svo á að íslenskar hafnir séu í samkeppni um móttöku skemmtiferðaskipa. Þetta sé einn og sami markaðurinn, flest skip komi til Reykjavíkur, Akureyri sé annar viðkomustaður og Ísafjörður sé oft þriðji kostur eða að þau hafi viðdvöl á Grundarfirði, Húsavík, Vestmannaeyjum og víðar.

12-13 milljóna tekjur fyrir Ísafjarðarbæ

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að stöðug aukning sé í móttöku skemmtiferðaskipa, þau hafi verið 17 í fyrra, verði 22 í ár og 23 séu bókuð næsta sumar. Farþegafjöldinn hefur stóraukist, úr 7.800 í fyrra í um 15 þúsund í ár og gert er ráð fyrir um 17 þúsund farþegum næsta ár.

,,Flest skipin geta lagst að bryggju og langflestir farþegar fara í ferðir um nágrennið, sigla inní Vigur, fara í Ósvör eða bæina í kring og þetta skapar miklar tekjur bæði fyrir höfnina og ferðaþjónustuna,” segir Guðmundur og áætlar að tekjur hafnarinnar í ár verði milli 12 og 13 milljónir króna. Segir hann þessar tekjur koma á móti minnkandi tekjum vegna minni umsvifa við löndun fiskiskipa. Guðmundur segir höfnina á Ísafirði geta tekið talsvert stór skip uppað en vissulega mætti lengja viðlegukant og dýpka við hann.

Hafnarstjóri segist ekki í vafa um að markaðsstarf hafi skilað Ísfirðingum þessum umsvifum. Sóttar hafa verið ferðakaupstefnur og hann segir Ísafjarðarbæ taka markvissan þátt í samtökunum Cruise Iceland.

Tíu skip koma við í Grundarfirði

Tíu komur skemmtiferðaskipa eru áætlaðar til Grundarfjarðar í sumar. Sigríður Finsen, forseti bæjarstjórnar, segir að eftir stækkun á hafnaraðstöðu hafi stærri skip viðdvöl með fleiri farþega. Hún segir þau ýmist dvelja í 4-5 tíma eða daglangt og farþegar komi margir hverjir í land og fari í ferðir um Snæfellsnes. Aðrir gangi um bæinn og nágrennið og segir hún það mjög misjafnt eftir aldri farþega og frá hvaða löndum þeir eru hversu miklum fjármunum þeir kjósa að verja í landi.

Tekjur hafnarinnar vegna þjónustu við skemmtiferðaskipin er um tvær milljónir króna. Sigríður segir að unnt sé að taka við fleiri skipum og hafi hafnaryfirvöld einu sinni sótt ferðakaupstefnu á Flórída og ætlunin sé að taka virkari þátt í markaðsstarfi til að laða að fleiri skip.

Skemmtiferðaskip koma ellefu sinnum til Vestmannaeyja í sumar og fimm slíkar komur eru til Seyðisfjarðar í sumar, sami fjöldi og kom þar við í fyrra. Þrjár skipakomur eru til Húsavíkur í sumar og viðkomu í Reykjanesbæ munu alls hafa í sumar og haust 9 skip.

Alls komu á síðasta ári 369 þúsund erlendir ferðamenn til landsins um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar. Til Reykjavíkur komu eins og fyrr segir um 55 þúsund farþegar með skemmtiferðaskipum en flest skipin hafa viðdvöl í Reykjavík og nokkur koma auk þess við á einni eða tveimur öðrum höfnum.

Skemmtiskip

Í lokin er ekki úr vegi að draga fram að í seinni tíð er farið að nota orðið skemmtiskip um þessi stóru fley. Má til sanns vegar færa að tilgangur siglingar með slíkum skipum er einkum og sér í lagi skemmtun. Skemmtiferðaskip er því kannski óþarflega langt orð. Svo má líka minna á orðið farþegaskip þótt það þyki ef til vill ekki vera mjög lýsandi fyrir það sem gerist um borð í lystiskipi miðað við ,,venjulegt” farþegaskip.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum