Samstarfsráðherrar Norðurlanda ræða um stöðu sjálfstjórnarsvæðanna í norrænu samstarfi
Jónína Bjartmarz umhverfis- og samstarfsráðherra sækir fund samstarfsráðherra Norðurlanda í Ósló miðvikudaginn 6. september. Á fundinum verður til umræðu ný úttekt á stöðu Færeyja, Grænlands og Álandseyja í norrænu samstarfi sem samstarfsráðherrarnir létu gera vegna aðildarumsóknar Færeyinga að Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni en hvorug stofnunin hefur tekið afstöðu til umsóknarinnar.
Á dagskrá ráðherranna er einnig nánari útfærsla á nýrri áætlun um þekkingaruppbyggingu og myndun tengslaneta í Rússlandi og Hvítarússlandi. Áætlunin gerir ráð fyrir að Norræna ráðherranefndin styrki rússneska og hvítrússneska borgara til þess að heimsækja Norðurlönd, bæði til að kynnast þeirri menningu sem þar er, en ekki síður þeim starfsaðferðum sem þar tíðkast við að taka á hvers kyns viðfangsefnum og vandamálum. Samkvæmt norrænni fjárlagatillögu ársins 2007, sem ráðherrarnir munu einnig fjalla um á fundinum, eru 87 milljónir danskra króna ætlaðar til aðgerða Norrænu ráðherranefndarinnar í grannríkjum og grannsvæðum.
Þá er á dagskrá tillaga að áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf við frjáls félagasamtök á Norðurlöndum, en löng hefð er fyrir því að alþjóðastofnanir og samtök kalli frjálsu félagasamtökin til ráðuneytis við stefnumótun og ákvarðanatöku í mikilvægum málum.
Jónína Bjartmarz samstarfsráðherra er til viðtals við fréttamenn að fundi loknum miðvikudaginn 6. september. Hægt er að ná í hana í síma 896-1233 milli kl. 10.00 og 11.00 að íslenskum tíma.
Reykjavík 5. september 2006