Að laga sig að loftslagsbreytingum
Allar vísbendingar hníga í þá átt að loftslagsbreytingar af mannavöldum eigi sér nú stað og muni líklega aukast á komandi áratugum. Hlýnun lofthjúpsins mun hafa misalvarlegar afleiðingar fyrir íbúa jarðar, en miklar breytingar á veðurfari munu á flestum stöðum valda röskun á náttúru og mannlegu samfélagi með tilheyrandi búsifjum.
Tvennt er til ráða. Annars vegar er hægt að reyna að draga úr hraða breytinganna, einkum með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá mannlegri starfsemi. Hins vegar er hægt að búa sig sem best undir það sem koma skal, aðlagast breyttum aðstæðum.
Íslendingar vinna með öðrum þjóðum heims að því að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda hnattrænt undir merkjum Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kýótó-bókunarinnar. Því hefur hins vegar verið minni gaumur gefinn hvernig hægt sé að aðlagast hugsanlegum breytingum.
Ýmsar ástæður liggja þar að baki. Ísland er ekki jafn viðkvæmt fyrir mögulegum afleiðingum loftslagsbreytinga og t.d. lönd sem glíma við þurrka eða láglend eyríki í hitabeltinu, sem sjá jafnvel fram á baráttu fyrir tilveru sinni vegna hækkunar sjávarborðs og aukinnar hættu á fellibyljum. Innviðir samfélagsins eru sterkir og þjóðin rík, en almennt gildir að fátæk lönd munu eiga erfiðast með að laga sig að breyttu úrkomumynstri og ræktunarskilyrðum og öðrum fylgifiskum hnattrænnar hlýnunar.
Það er ekki svo að alveg hafi láðst að búa Íslendinga undir væntanlegar breytingar. Þannig er nú gert ráð fyrir væntanlegri hækkun sjávarborðs við hönnun hafna og ýmsar athuganir hafa verið gerðar á vegum stjórnvalda og opinberra stofnana á mögulegum afleiðingum loftslagsbreytinga á landbúnað, vatnabúskap og orkuframleiðslu, opnun siglingaleiða á Norðurslóðum o.fl. Það er þó kannski ástæða til þess að huga enn betur að því hvernig best sé að mæta mögulegum breytingum í ljósi þess að vísindaleg vissa um eðli og umfang hlýnunar andrúmsloftsins virðist vera að styrkjast.
Er Golfstraumurinn í hættu?
Umhverfisráðherrar Norðurlandanna ákváðu á fundi nú í ágúst á Svalbarða að efla starf á norrænum vettvangi sem miðar að rannsóknum á afleiðingum loftslagsbreytinga í löndunum og aðlögun ríkjanna að þeim. Á Svalbarða hefur veðurfar hlýnað mikið á undanförnum árum og hafís hopað lengra norður en dæmi eru um frá því fólk kom til eyjanna.
Einn stærsti óvissuþátturinn varðandi hlýnun lofthjúpsins er hvaða áhrif hún getur haft á hafið og straumakerfi þess, sem flytur gífurlegt magn varma um jarðkúluna. Í yfirlýsingu norrænu ráðherranna er bent á þetta atriði sem forgangsmál í rannsóknum á veðurfarsbreytingum og afleiðingum þeirra.
Á undanförnum misserum hafa öðru hvoru birst fréttir í fjölmiðlum af rannsóknum á Golfstraumnum, sem að sögn benda ýmist til þess að hann sé að veikjast eða að litlar breytingar séu á styrk hans og stefnu. Mönnum hættir stundum til að oftúlka niðurstöður einstakra rannsókna og það bíður Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) að draga þær saman og gefa heillega mynd af bestu fáanlegu þekkingu í fjórðu yfirlitsskýrslu sinni, sem væntanleg er á næsta ári. Í þriðju skýrslu IPCC frá árinu 2001 kemur fram það mat að litlar líkur séu á stórfelldri röskun á Golfstraumnum á þessarri öld og vonandi breytist það mat ekki til hins verra. Miklar rannsóknir hafa farið fram á síðustu árum á sjávarstraumum í Norðurhöfum síðan þá, sem ætti að gera mönnum auðveldara fyrir að meta líkur á umskiptum þar.
Fáar spurningar brenna heitar á okkur Íslendingum hvað framtíðina varðar en hvort hætta sé á verulegri röskun á hafstraumum umhverfis landið og í Norður-Atlantshafi vegna loftslagsbreytinga. Við eigum ekki að staldra um of við hrakspár þar um, en okkur ber skylda til þess að fylgjast grannt með vísindarannsóknum sem auka skilning okkar á umhverfi hafsins og breytingum á því. Í því skyni hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu í Reykjavík 11.-12. sept. nk. um loftslagsbreytingar, hafstrauma og vistkerfi í Norður-Atlantshafi. Þar mun fjöldi íslenskra og erlendra vísindamanna leitast við að draga upp heillega mynd af ástandi hafsvæðisins nú og í fyrirsjáanlegri framtíð. Vísindin skipa öndvegi á ráðstefnunni, en boðið verður upp á umræður á henni þar sem leitað verður svara við því hvernig stjórnvöld og íslenskt samfélag geti búið sig undir hugsanlegar breytingar. Það er von mín að þeir sem láta sig framtíðina varða nýti þetta tækifæri og kynni sér vísindin og umræðuna um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á hafið og Ísland. Þekking er öflugasta vopnið til að búa sig undir breytingar, þótt öll vonum við að þær sem verða á loftslaginu verði sem minnstar og auðveldastar viðfangs.