Samgönguráðherra kynnti sér ferðaþjónustu í Rangárþingi
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra heimsótti í gær ferðaþjónustufyrirtækin Leirubakka og Hrauneyjar. Ræddi hann við forráðamenn þeirra, kynnti sér hugmyndir um uppbyggingu Hekluseturs og upplýsingagjöf og aðra þjónustu við ferðamenn í Rangárþingi.
Á Leirubakka ræddi samgönguráðherra við hjónin Valgerði Brynjólfsdóttir og Anders Hansen sem þar reka ferðaþjónustu. Þau vinna nú að undirbúningi Hekluseturs sem vera á alhliða fræðslu- og upplýsingamiðstöð um Heklu, náttúru hennar, jarðfræði og sögu. Reist hefur verið hús fyrir sýninguna en þar verður einnig fundarsalur með veitingaaðstöðu. Anders segir þau hafa orðið vör við að ferðamenn, ekki síst erlendir, leiti mjög eftir upplýsingum um Heklu og segir Heklusetrinu ætlað að bæta úr því. Næsta skref í uppbyggingunni er að ljúka innréttingum og síðan koma upp sjálfri sýningunni en Ari Trausti Guðmundsson og Vignir Jóhannsson sjá um efni hennar og hönnun. Stefnt er að því að opna setrið næsta vor ef fjármögnun tekst.
Unnið hefur verið að andlitslyftingu á hálendismiðstöðinni Hrauneyjum og segir Friðrik Pálsson, einn aðaleigenda, að þar sé mikill og stöðugur straumur ferðamanna allt sumarið og talsvert fram á vetur. Auk gistingar og veitingasölu að Hrauneyjum rekur fyrirtækið Hótel Háland sem er nær orkuverinu við Hrauneyjafoss og þar eru boði nokkrar gerðir og stærðir herbergja auk veitingasölu.
Fram kom hjá Friðriki og meðeigendum hans, Jórunni Eggertsdóttur og Sveini Tyrfingssyni sem hófu rekstur Hrauneyja árið 1994, að brýnt væri að merkja betur hvort opið væri eða lokað inn á hálendið á vetrum ekki síst vegna útlendinga. Sögðu þau mörg dæmi þess að erlendir ferðamenn hefðu ekið langt inn fyrir Hrauneyjar og talið sig vera á almennum þjóðvegi en síðan lent í hremmingum vegna veðurs eða færðar. Þá sagði Friðrik það skoðun sína að íslensk ferðaþjónusta hefði fullar hendur yfir hásumarið og beina ætti markaðsaðgerðum eingöngu að því að lengja ferðamannatímann vor og haust, sumarið seldi sig nánast sjálft. Hann segir erlenda ferðamenn sækja til Íslands í fámennið, einnig eftir ævintýrum, hreinleika landsins og víðáttunni. Þá segist hann hafa áhyggur af þróun mála í Landmannalaugum og telur að flytja eigi þjónustuna út fyrir viðkvæmasta svæðið þótt skáli Ferðafélags Íslands fengi að standa áfram.