Hoppa yfir valmynd
8. september 2006 Innviðaráðuneytið

Um 1.300 milljónir króna til ferðamála á árinu

Um það bil 500 milljónum króna er veitt til beinna ferðamálaverkefna á þessu ári og fara af þeirri upphæð rúmlega 300 milljónir annars vegar til þriggja landkynningarskrifstofa erlendis og hins vegar í margs konar markaðsaðgerðir erlendis. Rúmlega 60 milljónum er veitt til markaðsstarfs og uppbyggingar innanlands.

Hald
Við Tungnaá hefur verið reistur minnisvarði um Sigurjón Rist vatnamælingamann.

Til viðbótar þessum framlögum má nefna styrki til ferja og sérleyfishafa sem nema 643 milljónum króna á árinu og styrki til innanlandsflugs að upphæð 145 milljónir. Þessi framlög má heimfæra að vissu marki undir ferðamál og heildarframlög til málaflokksins eru þá kringum 1.300 milljónir króna á árinu.

Yfir 260 milljónir til Ferðamálastofu

Af þeim 500 milljónum króna sem renna beint til ferðamála fara 264 milljónir til Ferðamálastofu sem hefur með höndum margvísleg verkefni á sviði ferðamála. Stærsti einstaki liðurinn þar, 107 milljónir króna, er rekstur þriggja landkynningarskrifstofa í New York, Frankfurt og Kaupmannahöfn þar sem alls starfa sjö manns. Til reksturs Ferðamálastofu fara 59 milljónir og 60 milljónum er veitt til uppbyggingar á fjölsóttum ferðamannastöðum. Þá renna 25 milljónir króna til ferðamálasamtaka í hinum ýmsu landshlutum og samstarfssamningar við Grænland og Færeyjar á sviði ferðamála kostar 12,6 milljónir.

Annar stór liður í framlögum til ferðamála er vegna markaðsaðgerða erlendis, sérstakar aðgerðir sem falla utan starfsemi landkynningarskrifstofa Ferðamálastofu. Er það annars vegar 150 milljóna króna framlag til markaðsaðgerða í Evrópu og víðar og hins vegar 47 milljóna króna framlag til aðgerða í Norður-Ameríku og tengist sérstaklega verkefninu Iceland Naturally. Snýst það kynningarátak um að kynna Ísland sem ferðamannaland og íslenskar afurðir á erlendum markaði. Á þessu ári verður hliðstæðri kynningu hleypt af stokkunum í Þýskalandi, Bretlandi og Frakklandi.

Framlög til ýmissa þátta ferðamála innanlands eru ekki síður mikil, alls kringum 153 milljónir króna. Stærstu liðirnir eru framlög til fjölsóttra ferðamannastaða og til landshlutasamtaka eins og áður er getið, alls 85 milljónir. Önnur framlög eru 12,2 milljónir til gestastofa, safna og markaðsstarfs.

Undir liðinn ýmis framlög, 31,5 milljónir, falla verkefni eins og vefur um menningartengda ferðaþjónustu, samstarf ríkis og sveitarfélaga um menningarmál og fleira og liðurinn ýmislegt kostar meðal annars framlög til Ferðafélags Íslands, til upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn í Vestmannaeyjum, Hveravallafélagsins og fleiri aðila.

Markaðssóknin haldi áfram

Sé litið á framlög til ferðamála síðustu árin sést að árin 1999 til 2001 voru þau frá 700 og uppí 867 milljónir á ári en hafa síðan farið stigvaxandi og voru hæst árið 2004 1.342 milljónir króna. Skýringin á lækkuninni er einkum minni framlög til markaðssóknar íslenskrar ferðaþjónustu erlendis og er það umhugsunarefni. Þau voru fyrstu árin 300 milljónir króna en framlagið í ár er 150 milljónir króna.

Ferðaþjónustan hefur vaxið að umfangi mörg síðustu ár og er löngu orðin atvinnugrein sem skiptir þjóðarbúið miklu máli. Áríðandi er því að halda áfram af krafti þeirri markaðssókn sem stunduð hefur verið erlendis og því verður lögð mikil áhersla á að auka aftur sérstök framlög til markaðssóknar. Þar eru víða tækifæri og ekki síst horfa menn til Asíulanda í því sambandi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta