Viðskipti með losunarheimildir á Norðurlöndunum
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Nýlega er komin út á vegum norræna ráðherraráðsins skýrsla sem fjallar um það hvernig Norðurlöndin ætla að takast á við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Þessi skýrsla er unnin á vegum norrænu umhverfis- og efnahagsnefndarinnar í samstarfi við norrænu loftslagsnefndina.
Í skýrslunni er fjallað um það hvernig Norðurlöndin hyggjast nýta viðskipti með losunarheimildir sem hluta af stefnunni í loftslagsmálum og beita þannig hagrænum stjórntækjum til að ná umhverfismarkmiðum.
Í dag er lagður skattur á losun koltvísýrings við orkuframleiðslu og aðrir orkuskattar eru mikið notaðir á Norðurlöndunum, t.d. á eldsneyti. Þá hafa stjórnvöld gert frjálsa samninga við einstakar atvinnugreinar auk þess sem þau beita niðurgreiðslum og öðrum stuðningi til að auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa og bæta orkunýtingu. Þá hyggjast löndin notfæra sér möguleika Kyoto-bókunarinnar til samstarfsverkefna við önnur ríki í þeim tilgangi að draga úr losun.
Öll Norðurlöndin stefna að því að þær aðgerðir sem gripið verður til verði eins hagkvæmar og mögulegt er og að þær leiði til eins lítillar röskunar á efnahagsstarfseminni og hægt er. Þá er mikilvægt að aðgerðirnar leiði ekki til mismununar. Þetta er þó ekki einfalt mál. Allar líkur eru á því að stjórnvöld muni þurfa að kaupa losunarheimildir erlendis frá ef takast á að ná markmiðunum enda fylgja því töluverðar sektir ef svo verður ekki.
Skýrslu þessa er hægt að nálgast í fjármálaráðuneytinu en einnig er skýrslan á vef norræna ráðherraráðsins.