Hoppa yfir valmynd
12. september 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áherslur ESB á sviði ríkisaðstoðar 2005-2009

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á vegum framkvæmdastjórnar ESB er nú unnið að því að ýta úr vör helstu áhersluatriðum framkvæmdastjórnarinnar á sviði ríkisaðstoðar fyrir árin 2005 til 2009.

Með nýrri framkvæmdastjórn var birtur vegvísir fyrir endurskoðun reglna um ríkisaðstoð á tímabilinu. Er í hinum nýja vegvísi meiri áhersla en áður á mat á efnahagslegum áhrifum ríkisaðstoðar.

Til að réttlæta veitingu ríkisaðstoðar þarf almennt að sýna fram á markaðsbrest sem ekki er hægt að bregðast við með öðrum hætti en með ríkisaðstoð og að eðlilegt jafnvægi sé á milli jákvæðra afleiðinga ríkisaðstoðarinnar og hugsanlegra neikvæðra áhrifa hennar á samkeppni.

Langtímamarkmið framkvæmdastjórnar ESB er að draga úr heildarfjárhæð ríkisaðstoðar meðal aðildarríkjanna og gera veitingu hennar markvissari. Á tímabilinu 2005 til 2009 verður, á ofangreindum forsendum, farið í endurskoðun á flestum þeim leiðbeinandi reglum sem gilda um ríkisaðstoð, þ.m.t. aðstoð til atvinnumála, rannsóknar- og þróunarverkefna, umhverfismála, nýsköpunar, þjónustu í almannaþágu og ríkisaðstoðar til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Sem hluta af hinum nýja vegvísi þá lauk fyrr á þessu ári endurskoðun framkvæmdastjórnarinnar á reglum um byggðaaðstoð, þar sem almennt séð er reynt að draga úr slíkri ríkisaðstoð og gera hana markvissari. Í framhaldi af því hafa aðildarríki ESB og EFTA-ríkin verið að vinna að nýjum byggðakortum sem tilgreina á hvaða landsvæðum heimilt er að veita byggðaaðstoð.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta