Verndum þau - námskeið um ofbeldi gegn börnum og unglingum
Menntamálaráðuneyti og Félag fagfólks í frítímanum standa fyrir námskeiðum næstu mánuði um hvernig bregðast eigi við vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum og unglingum. Námskeiðin eru byggð á efni bókarinnar, Verndum þau. Námskeiðin eru ætluð öllum þeim sem starfa með börnum og unglingum hjá sveitarfélögum, íþróttafélögum, æskulýðsfélögum og öðrum þeim sem áhuga hafa. Alls verða námskeiðin 24 og fyrsta námskeiðið verður haldið í október.
Kynningarfundur verður haldinn þriðjudaginn 12. september kl.14.30 í félagsmiðstöðinni Selinu, Seltjarnarnesi, þar sem verkefnið verður formlega sett af stað.
Það eru höfundar bókarinnar, Verndum þau, sem stýra námskeiðunum. Ólöf Ásta Farestveit er uppeldis- og afbrotafræðingur og Þorbjörg Sveinsdóttir er með BA í sálfræði. Þær starfa báðar í Barnahúsi og hafa mikla reynslu af barnaverndarmálum.
Flest börn búa við öruggt og friðsælt umhverfi, heima, í skóla, leik- og frístundastarfi. Því miður á þetta ekki við um öll börn. Á Íslandi eru börn sem eiga undir högg að sækja, búa við vanrækslu eða eru beitt ofbeldi - líkamlegu, kynferðislegu eða andlegu. Það er mikilvægt að þeir sem starfa með börnum og unglingum séu meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð og geti lesið í vísbendingar um að vanræksla eða ofbeldi eigi sér stað gegn börnum.