Hoppa yfir valmynd
13. september 2006 Innviðaráðuneytið

Opnaði vef um sögutengda ferðaþjónustu

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra opnaði í gær vef um sögutengda ferðaþjónustu á ferðakaupstefnunni Vestnorden í Reykjavík. Kaupstefnunni lýkur í dag en hún er haldin á hverju ári, annað hvert ár á Íslandi en hin árin í Færeyjum og Grænlandi.

Vestnorden vefopnun
Sturla Böðvarsson opnaði vefinn í gær. Rögnvaldur Guðmundsson og Ragnhildur Hjaltadóttir fylgjast með.

Helsti tilgangur Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu er að vera samvinnu- og samráðsvettvangur þeirra er stunda sögutengda ferðaþjónustu á Íslandi. Auk þess er markmiðið að auka samvinnu í kynningarmálum og gæðamálum. Samtökin leggja í fyrstu áherslu á arfleifð íslenskra miðaldabókmennta, fyrstu aldir Íslandsbyggðar og miðaldamenningu eða tímabilið frá landnámi og fram um 1300. Yfir 20 aðilar kynna sig og  starfsemi sína á vefnum svo sem söfn, sýningar, minjar, mannvirki, hátíðir, slóðir ákveðinna Íslendingasagna og fleira.

Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu, var samgönguráðherra innan handar við opnun vefjarins í gær en ráðherrann skoðaði jafnframt sýninguna og ræddi við nokkra kaupendur og seljendur ferðaþjónustu. Slóðin er sagatrail.is.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta