Hlutafélagið Matís ohf. hefur verið stofnað
Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar sameinast í Matís ohf.
Hlutafélagið Matís ohf. hefur verið stofnað. Það er að öllu leyti í eigu ríkisins og fór stofnfundurinn fram í sjávarútvegsráðuneytinu fimmtudaginn 14. september 2006.
Samþykkt var í upphafi fundar tillaga sjávarútvegsráðherra um að nafni fálagsins verði breytt í Matís ohf. ( í stað Matvælarannsóknir hf. )
Í Matís ohf. sameinast starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti, sbr. samstarfssamning milli Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans, og Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Breytingarnar taka gildi um næstu áramót og eru í samræmi við 1. gr. laga nr. 68/2006 um stofnun Matvælarannsókna hf.
Andri Árnason hæstaréttarlögmaður stýrði stofnfundinum og kynnti í upphafi fundar stofnskrá félagsins sem Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra undirritaði. Þá voru samþykktir félagsins kynntar og skrifaði sjávarútvegsráðherra einnig undir þær. Félagið er stofnað með hlutafé að fjárhæð 5 milljónir króna, sem verða greiddar úr sjóðum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Endanlegt stofnfé verður ákveðið þegar fyrir liggur mat á eignum og skuldum sem tengjast rekstri þeirra stofnunar og deilda sem eiga að sameinast í Matís ohf.
Í stjórn hins nýja félags voru skipuð:
Friðrik Friðriksson,
Guðrún Elsa Gunnarsdóttir,
Jón Eðvald Friðriksson,
Sigríður Sía Jónsdóttir,
Einar Matthíasson,
Arnar Sigurmundsson og
Ágústa Guðmundsdóttir.
Stofnfundinum var síðan frestað og verður honum fram haldið síðar þegar endanlegt mat á eignum liggur fyrir.
Jón B. Jónasson ráðuneytisstjóri í Sjávarútvegsráðuneytinu, Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Andri Árnason hæstaréttarlögmaður.
Sjávarútvegsráðuneytinu 14. september 2006