Ávarp Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra á samgönguviku Reykjavíkur 2006
Ég vil byrja á því að þakka Reykjavíkurborg fyrir framlag hennar til Evrópsku samgönguvikunnar og óska öllum þeim sem koma að skipulagningu hennar til hamingju með vel unnið verk. Mikilvægi vikunnar er fólgið í þeirri umræðu sem henni fylgir og hún veitir okkur tilefni til að spyrja okkur grundvallarspurninga um hvernig samfélagi við viljum búa í og hvernig við viljum þróa það.
Við eigum flest bíl og í daglegu lífi okkar notum við hann til að komast á milli staða á þægilegan og oftast skjótan hátt. Hjá flestum okkar kemur vart til greina að leggja bílnum alveg, en auðvitað höfum við hugleitt það hvort ekki sé mögulegt að skilja hann þó oftar eftir heima. Andstaða almennings við að leggja einkabílnum hefur oft komið fram í könnunum og þær kannanir gefa það jafnframt til kynna að aðeins í fimm prósentum tilvika förum við ferða okkar innan höfuðborgarsvæðisins með strætisvögnum. Í nánast öllum öðrum tilvikum veljum við að ferðast um á einkabílnum.
En þetta órjúfanlega samband sem við Íslendingar virðumst eiga við einkabílinn er þó stormasamt. Hann hefur fært okkar mikil og vel þegin þægindi en um leið ógnar hann umhverfi okkar og heilsu. En hvað er þá til ráða fyrir þjóð eins og okkur sem er svona föst í hjólförum einkabílsins?
Ég er þeirrar skoðunnar að við getum bætt þetta samband og gert það gæfuríkt fyrir okkur sjálf, afkomendur okkar og komandi kynslóðir. Ég ætla hér að nefna hér nokkur dæmi um það hvernig það er hægt
Við getum einfaldlega valið það fyrir okkur sjálf, hvert og eitt okkar, og jafnframt stuðlað að því að fleiri styttri ferðir séu farnar gangandi eða hjólandi í stað þess að nota bílinn. Það er athyglisverð staðreynd að helmingur allra ferða kílómeter eða styttri í Reykjavík eru farnar með einkabíl og tvær af hverjum þremur ferða sem eru styttri en 3 km. Þessu getum við breytt með hugarfarinu einu saman og um leið og við hreyfum okkur meira stuðlum við að heilnæmari lífsháttum og betri heilsu. Með markvissri hugarfarsbreytingu í þessa veru tekst okkur líka að draga úr hávaða, umferðarslysum og að auka loftgæðin í borginni
En fimmtungur losunar gróðurhúsalofttegunda hér á landi kemur frá bílaumferð. Við sjáum dæmi um það hér fyrir utan Ráðhúsið hvernig tæknin verður okkur að liði í þeirri þróun að draga úr þeirri losun. Fjölgun tvíorkubíla, metanbíla og neyslugrannra dísilbíla á götum borgarinnar myndi draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir mikilvægi þessa og breytti þungaskattskerfinu og hefur veitt afslátt af gjöldum af metanbílum og tvíorkubílum til þess að hvetja fólk til kaupa þá bíla. Þannig eru til dæmis 240.000 krónur dregnar af verði tvíorkubíla áður en vörugjald þeirra er reiknað út auk þess sem bílarnir falla í lægsta vörugjaldsflokk. Reykjavíkurborg hefur líka gengið á undan með góðu fordæmi í þessum efnum og tekið umhverfisvænni bíla í þjónustu sína.
Þá getum við líka vegið upp á móti losun gróðurhúsalofttegunda með því að binda þær með skógrækt og landgræðslu. Iðntæknistofnun hefur sýnt frumkvæði í þessu og stundar nú skógrækt í landi Skógræktarfélags Hafnarfjarðar til að vega upp á móti þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af akstri starfsmanna stofnunarinnar til og frá vinnu. Von mín er sú að önnur fyrirtæki og stofnanir feti í þessi fótspor.
Mér hefur verið tíðrætt um einkabílinn hér í dag og mikilvægi þess að draga úr mengun sem honum fylgir en það er jafnframt skoðun mín að við þurfum að hvetja fólk til þess að nýta sér aðra samgöngumáta. Framlag Reykjavíkurborgar með útgáfu nýs reiðhjólakorts er mikilvægt innlegg í þá átt sem ber að þakka.
Sveitarfélögin hafa gengið á undan með góðu fordæmi með rekstri Strætó en rekstur almenningssamgöngukerfa er ekki eitt af lögbundnum skyldum þeirra . Sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu og einnig má nefna Akureyri, Ísafjörð, Fjarðabyggð o.fl. greiddu á síðasta ári rúman einn og hálfan milljarð króna með rekstri almenningssamgangna en ríkissjóður á hinn bóginn hefur haft verulegar tekjur af þessum rekstri. Það mæla margvísleg rök og hagsmunir okkar allra með því að við stöndum saman og snúum vörn í sókn fyrir almenningssamgöngum sem raunhæfum valkosti gagnvart einkabílnum. Fyrir því vil ég beita mér.
Ágætu gestir
Ég ítreka að lokum þakkir mínar fyrir framlag Reykjavíkurborgar til samgönguviku, hún er mikilsvert framlag í baráttunni fyrir bættu umhverfi, okkur öllum til heilla.