Afhending trúnaðarbréfs
Stefán Lárus Stefánsson, sendiherra, afhenti þann 12. september, 2006 Terry Davis, aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins í Strassborg, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu með aðsetur í Strassborg.
Ísland gerðist aðili Evrópuráðsins þann 7. mars 1950. Fastanefnd í Strassborg var sett á laggirnar árið 1997 og tveimur árum síðar fór Ísland með formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins, 7. maí - 4. nóvember 1999, en ráðherranefndin hefur á hendi ákvarðanatöku innan ráðsins.
Samkvæmt stofnskrá Evrópuráðsins er því ætlað að efla samvinnu meðal aðildarríkjanna með því að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti og sameiginlega arfleifð réttarríkis auk þess að efla mannleg gildi og almenn lífsgæði meðal Evrópubúa.
Ísland hefur frá upphafi tekið virkan þátt í starfsemi ráðsins á fjölmörgum sviðum, t.d. á sviði mannréttinda og lýðræðisþróunar í Evrópu. Sérstaklega ber að geta öflugrar þátttöku íslenskra þingmanna í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins sem er mikilvægur vettvangur pólitískrar umræðu í Evrópu. Fjölmörg ráðuneyti hafa beitt sér á vettvangi Evrópuráðsins, þar á meðal dóms- og kirkjumálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Einnig má nefna öflugt samstarf á sviði sveitarstjórna sem samband íslenskra sveitarfélaga hefur sinnt.
Evrópuráðið er elsta starfandi stjórnmálastofnun álfunnar en það var stofnað 1949. Aðildaríki þess telja nú 46, þar af 21 frá mið- og Austur Evrópu. Aðildarumsóknir tveggja annarra ríkja eru nú til meðferðar hjá ráðinu en þess má geta að 5 ríki til viðbótar hafa þar áheyrnarstöðu, Páfagarður, Bandaríkin, Kanada, Japan og Mexíkó.