Hoppa yfir valmynd
19. september 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vinnuaflsframboð á Norðurlöndunum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Nýlega kom út skýrsla vinnuhóps, skipaðs fulltrúum frá öllum fjármálaráðuneytum Norðurlandanna, um áhrif skatta á vinnuaflsframboð.

Vinnuaflsframboð á Norðurlöndunum er mikið sé miðað við meðaltal OECD-ríkjanna, hvort sem horft er til atvinnuþátttöku eða lengdar vinnuviku. Á sama tíma eru skattar hærri og bætur til þeirra sem standa utan vinnumarkaðar meiri en að jafnaði hjá öðrum löndum innan OECD. Ísland er þó að því leyti frábrugðið að hér eru jaðarskattar og tekjuskattbyrði lægri, atvinnuþátttaka meiri og vinnuvikan lengri en á hinum Norðurlöndunum að jafnaði.

Hluta af skýringunni á þessu mikla vinnuaflsframboði á Norðurlöndunum er líklega að finna á eftirspurnarhliðinni. Finnar leggja þannig mikla áherslu á að horfa til eftirspurnarhliðarinnar til að vinna bug á langvarandi og auknu atvinnuleysi þar í landi. Vinnuhópnum var hins vegar falið að horfa til framboðshliðar vinnumarkaðarins.

Atvinnuþátttökuhlutfall einstaklinga á aldrusbilinu 55-64

Þannig skapar mikið vinnuaflsframboð kvenna á Norðurlöndunum þeim mikla sérstöðu innan OECD og hefur lengd fæðingarorlofs og gott aðgengi að dagvistun líklega jákvæð áhrif þar á. En markmið stofnunar vinnuhópsins var þó fyrst og fremst að teknar yrðu saman þær aðferðir sem notaðar eru í fjármálaráðuneytum Norðurlandanna við að meta áhrif skattabreytinga á vinnuaflsframboð ólíkra þjóðfélagshópa. Mikilvægi slíkra rannsókna mun aukast í náinni framtíð um leið og þjóðfélögin eldast og hlutfall þeirra sem eru á vinnualdri lækkar. Sú þróun er mikið áhyggjuefni á hinum Norðurlöndunum þar sem t.d. atvinnuþátttaka 55-64 ára er 22-35% minni en hér á landi og því mikilvægt að rannsaka hver áhrif skattabreytinga á vinnuaflsframboð þessa hóps og annarra geti verið.

Rannsóknir á vinnuaflsframboði eru mjög vandasamar. Þau skattalíkön sem þróuð hafa verið á Norðurlöndunum gefa mjög mismunandi teygnistuðla milli ólíkra hópa. Helstu niðurstöður eru þær að teygnin er minnst hjá körlum sem hæstu tekjurnar hafa, en mun meiri hjá þeim hópum sem eru að velta atvinnuþátttöku sinni fyrir sér eins og t.d. námsmönnum og þeim sem eru að komast á lífeyrisaldur. Einnig er nokkur teygni hjá hlutastarfandi konum.

Hlutfallsleg teygni er því nokkurn veginn í takt við það sem vænta mátti, en niðurstaða vinnuhópsins er sú að vinna þurfi að frekari þróun kvikra skattalíkana til að áætla megi betur áhrif af skattabreytingum. Ítarlegri umfjöllun og niðurstöður er að finna í skýrslunni sem er aðgengileg á vefslóð fjármálaráðuneytisins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta