Norrænir fjarskiptasérfræðingar á Íslandi
Embættismenn ráðuneyta á Norðurlöndunum sem annast yfirstjórn fjarskiptamála áttu í síðustu viku fund á Íslandi þar sem þeir skiptust á upplýsingum um það sem er efst á baugi í þróun fjarskiptamála.
Fyrir hönd samgönguráðuneytisins sátu fundinn Karl Alvarsson skrifstofustjóri og Jón Eðvald Malmquist lögfræðingur en fjarskiptamál heyra yfirleitt undir ráðuneyti samgöngumála á Norðurlöndunum. Þeir sögðu fundinn hafa verið gagnlegan og margt framundan á sviði fjarskiptanna. Meðal annars væri fjarskiptalöggjöf Evrópulanda nú í endurskoðun og hefðu fyrir nokkru komið fram nýjar tillögur Evrópusambandsins í þeim efnum. Þessar breytingar snerta meðal annars tíðnimál, neytendavernd, samruna og öryggismál en breytingartillögurnar hafa meðal annars verið kynntar á vef samgönguráðuneytisins.
Í fundarlok buðu íslensku gestgjafarnir starfsbræðrum sínum í skoðunarferð um Suðurland og var myndin tekin við það tækifæri. Frá vinstri eru ferðalangarnir Odd Martin Helleland, Sune Rahn, Christina Christensen, Jón Eðvald Malmquist, Jorn Ringlund og Anna Gillholm.