Jöfn framtíð fyrir stelpur og stráka
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra opnaði í gær nýja heimasíðu undir heitinu “Jöfn framtíð fyrir stelpur og stráka” á Hótel Örk í Hveragerði á fundi með jafnréttisnefndum sveitarfélaga. Markmið með opnun síðunnar er að beina sjónum að kynbundnu starfsvali og stuðla að fræðslu um jafnréttismál. Heimasíðan er ætluð ungmennum, foreldrum, kennurum og námsráðgjöfum og er ætlað að auðvelda ungmennum að velja sér nám og starf í samræmi við raunverulegn áhuga fremur en á grundvelli kyns.
Ýmsar rannsóknir benda til að kynskiptur vinnumarkaður skýri stóra hluta af ójafnri stöðu kynjanna. Segja má að kynbundið náms- og starfsval sé samfélagslegt vandamál þar sem það hindri bestu nýtingu mannauðsins og dragi úr sveigjanleika vinnumarkaðarins. Kynbundið náms- og starfsval er einnig einstaklingsbundið vandamál þar sem það takmarkar valmöguleika einstaklinga og hindrar þá í að takast á við nám og starf sem þeir hafa áhuga á. Oft er það svo að menn einfaldlega íhuga ekki alla þá möguleika sem eru fyrir hendi og að nokkrir séu fyrirfram útilokaðir af því þeir séu ekki taldir hæfa viðkomandi kyni. Þessari síðu er ætlað að vera liður í viðleitni til að opna dyr og fjarlægja þröskulda í þessu efni og stuðla að auknu jafnrétti í nútíð og framtíð.
Heimasíðan (lige-frem.dk) var upphaflega unnin af jafnréttisráðuneyti Dana með tilstyrk Norrænu ráðherranefndarinnar á formennskuári þeirra 2005 en félagsmálaráðuneytið hefur í samráði og samvinnu við viðkomandi aðila staðfært heimasíðuna.
Lýðræðis- og jafnréttisnefnd Hafnarfjarðar og jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar (nú mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar) hafa haft frumkvæði að umræðu um jafnréttisstarf í leik- og grunnskólum. Á þeirra vegum og í samstarfi við félagsmálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið var haldin ráðstefna í mars síðastliðnum undir heitinu “Kynlegur skóli “. Var það mjög vel heppnuð ráðstefna sem sýndi að knýjandi þörf er á auka og efla jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum. Í framhaldi af ráðstefnunni hefur félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa tekið þátt í viðræðum við fulltrúa fyrrnefndra aðila og Sambands íslenskra sveitarfélaga um hugsanlegt samvinnuverkefni um jafnréttis – og skólamál. Þessi hópur hefur einnig átt viðræður við fulltrúa menntamálaráðuneytisins, Kennaraháskóla Íslands og fleiri aðila. Þessi nýja viðbót við heimasíðu ráðuneytisins er framlag til þessa verkefnis.
Slóðin er http://jafnretti.felagsmalaraduneyti.is
Heimasíðan verður einnig vistuð hjá Jafnréttisstofu.