Stjórnmálasamband við Svartfjallaland
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 063
Þriðjudaginn 26. september undirrituðu Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Miodrag Vlahovic, utanríkisráðherra Svartfjallalands, yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands milli ríkjanna. Undirritunin fór fram í New York, samhliða allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Eins og kunnugt er samþykktu Svartfellingar í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á þessu ári tillögu um að segja sig úr ríkjasambandi við Serbíu. Í kjölfarið var ákveðið stofna sjálfstætt ríki. Ísland, fyrst ríkja í heiminum, viðurkenndi fullveldi Svartfjallalands, 8. júní sl. Svartfjallaland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum 28. júní 2006.