Umhverfisráðherra í Þjórsárverum
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra fór í dagsferð um Þjórsárver í gær. Þjórsárver eru víðáttumesta gróðurvin miðhálendisins auk þess sem þar er að finna mestu varpstöðvar heiðargæsarinnar í heimi. Hluti Þjórsárvera hefur verið friðlýstur frá 1981 og verin hafa verið á skrá Ramsar-samþykktarinnar frá 1990, eitt þriggja slíkra svæða hér á landi. Markmið Ramsar-samþykktarinnar er að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, sérstaklega sem lífsvæði fyrir votlendisfugla. Umhverfisráðherra hefur lýst þeirri skoðun sinni að stækka beri friðlandið og láta af frekari orkunýtingaráformum á svæðinu.
Að lokinni ferð sinni um Þjórsárver átti umhverfisráðherra fund með sveitarstjórnarmönnum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem afstaða þeirra til friðlýsingar var rædd. Ráðherra mun eiga fund með sveitarstjórn Ásahrepps á næstu dögum.