Samningur við Ríkisútvarpið um almannaþjónustu
Menntamálaráðuneytið og Ríkisútvarpið hafa náð samkomulagi um drög að samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Hlutverk samningsins er að skilgreina og lýsa nánar tilgangi og hlutverki RÚV og þær kröfur sem gerðar eru til Ríkisútvarpsins á grundvelli þess frumvarps sem lagt verður fram á fyrstu dögum þingsins. Gert er ráð fyrir að hann taki gildi samhliða breyttu rekstrarformi Ríkisútvarpsins.
Í samningnum er skilgreint hvaða kröfur eru gerðar til RÚV er varðar hljóðvarps- og sjónvarpsefni, þjónustu á textavarpi og veraldarvefnum, menningararf, sjónvarps- og hjóðvarpsdreifingu og þær upplýsingar sem koma eigi fram í ársskýrslu. Þá er gerð ítarleg grein fyrir því með hvaða hætti RÚV skuli halda fjármálum og bókhaldi aðskildu milli þeirrar starfsemi sem varðar útvarpsþjónustu í almannaþágu og þess sem er í samkeppnisrekstri. Er gert ráð fyrir því að samningurinn sé til fimm ára.
Helstu nýmæli í samningnum er stóraukin áhersla á íslenskt efni. Er mælt fyrir um það í samningnum að hlutfall íslensks efnis á kjörtíma aukist um tæp 50% á samningstímanum.
Þá mun fjöldi textaðra klukkustunda aukast um 100% frá upphafi samningstímabilsins til loka þess. Þá er stefnt að því að öll forunnin innlend dagskrá verði textuð í lok samningstímabilsins. RÚV mun jafnframt gegna veigamiklu hlutverki í að styrkja og efla nýsköpun í dagskrárgerð með því að kaupa og sýna efni frá sjálfstæðum framleiðendum.
Í samningnum skuldbindur RÚV sig til að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildamyndum eða öðru sjónvarpsefni og verja til þess að lágmarki 150 milljónum króna á ári frá og með árinu 2008. Árið 2009 hækkar upphæðin í 200 milljónir króna og verður við lok samningstímabilsins 250 milljónir.
Þá er stefnt að því á samningstímanum að ná heildarsamkomulagi við rétthafa um víðtækari notkun á eldra safnaefni til að gera það aðgengilegra almenningi.
Þjónustusamningar hafa verið gerðir við ríkisfjölmiðla í ýmsum Evrópuríkjum. Má nefna lönd eins og Danmörku, Svíþjóð, Belgíu, Frakkland og Írland. Verið er að undirbúa slíka samninga í fleiri löndum þar sem ríkari krafa er nú gerð um að útvarpsþjónusta í almannaþágu sé vel skilgreind og haldið aðskilinni frá starfsemi í samkeppnisrekstri.
- Samningur við Ríkisútvarpið um almannaþjónustu (pdf - 40KB)
- Samningur við Ríkisútvarpið um almannaþjónustu (doc - 60KB)