Ábendingar um ólöglegar veiðar á hreindýrum
Umhverfisráðuneytinu hefur að undanförnu borist fjölmargar ábendingar um ólöglegar veiðar á hreindýrum á veiðisvæðum 8 og 9 á Mýrum og í Hornafirði í Austur-Skaftafellssýslu. Fullyrt er að þessar ólöglegu veiðar hafi átt sér stað undanfarin ár utan lögbundins veiðitíma, einkum á þeim tíma sem nú fer í hönd. Af þessum sökum og með vísan til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum hefur umhverfisráðuneytið komið þessum ábendingum á framfæri við sýslumanninn á Höfn í Hornafirði og farið þess á leit að hann geri það sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir ólöglegar veiðar á hreindýrum með virkara eftirliti. Það skal tekið fram að brot gegn lögunum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum og sviptingu skotvopna- og veiðileyfis.
Samkvæmt reglugerð um stjórn hreindýraveiða er einungis þeim heimilt að veiða hreindýr sem kaupa veiðileyfi hjá hreindýraráði og hafa veiðikort og heimild lögreglu til þess að nota skotvopn. Þá nær veiðitíminn frá 1. ágúst til 15. september ár hvert. Alls veiddust 906 hreindýr á veiðitímabilinu í ár en ráðherra hafði veitt leyfi til að veiða 909 dýr.