Ávarp Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra á þingi Neytendasamtakanna 2006
Góðir áheyrendur,
Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á þessu þingi Neytendasamtakanna.
Neytendasamtökin hafa verið öflug í baráttu sinni fyrir fjölmörgum málum. Efnavörur, erfðabreytt matvæli, matvælamál, byggingamál, umhverfismál og siðræn viðskipti, allt eru þetta sameiginleg hagsmunamál neytenda og stjórnvalda sem Neytendasamtökin hafa haldið ötullega á lofti og varða verkefni umhverfisráðuneytisins.
Efnavörur eru málaflokkur sem mikið hefur verið unnið að í umhverfisráðuneytinu að undanförnu. Daglega erum við í snertingu við fjölda efna og efnasambanda sem geta haft áhrif á líkama okkar daglegt líf. Snyrtivörur, fatnaður, húsgögn og umbúðir geta innihaldið allskyns efni sem ekki eru okkur öll jafn holl. Frumvarp til laga um efni og efnavörur hefur verið í vinnslu í ráðuneytinu, en það frumvarp felur í sér heildarendurskoðun á lögum um eiturefni og hættuleg efni frá árinu 1988 og er frumvarpinu ætlað að taka mið af efnalöggjöf Evrópu.
Í ráðuneytinu er náið fylgst með þeirri þróun sem á sér stað innan Evrópusambandsins á þessu sviði. Þar hefur verið í undirbúningi ný lög um efni og efnavörur ,svokallað REACH (Registration, Evaluation and Authorisation of Chemicals) sem á íslensku kallast, skráning, mat, leyfisveitingar og eftirlit með skaðlegum efnum. Í REACH kerfinu verða efnin skráð, metin og í framhaldinu verður notkun þeirra samþykkt, leyfð með takmörkunum eða þau jafnvel bönnuð eftir því sem við á. REACH er neytendum mikið hagsmunamál og er það von okkar í umhverfisráðuneytinu að REACH öðlist gildi innan Evrópusambandsins næsta vor og verði hluti af íslenskri löggjöf í framtíðinni.
Á sviði matvælamála eru það gæði og heilnæmi matvæla sem þarf að tryggja út frá sjónarmiðum heilsu og heilbrigðs lífsstíls. Á fundi Norrænu Ráðherranefndarinnar var samþykkt áætlun sem á að tryggja neytendum Norðurlandanna holla og góða vöru. Litið er heildstætt á málaflokkinn og ekki aðeins er tekið tillit til heilsu neytenda, heldur er einnig tekið tillit til dýraverndarsjónarmiða og dýraheilbrigði til að tryggja að gæði vörunnar verði sem mest.
Frumvarp til laga um breytingar á lögum um matvæli hefur verið í undirbúningi í ráðuneytinu en markmið frumvarpsins er að uppfylla skyldur íslenska ríkisins um að fella reglugerð Evrópusambandsins um matvælaeftirlit og hollustuhætti nr. 178 frá árinu 2002 inn í EES-samninginn.
Á tímum frjálsra viðskipta er matvælum dreift út um allan heim og þau matvæli sem eru á borðum okkar Íslendinga geta átt sér uppruna hvar sem er í heiminum. Af og til koma upp tilfelli um að þau matvæli sem okkur stendur til boða geti verið varasöm, samanber nýlegar fréttir þar sem bæði froskar og spínat koma við sögu. Til að auðvelda innköllun á matvörum, ef upp koma slík tilfelli hér á landi, er nauðsynlegt að geta rakið vöruna strax til framleiðanda eða dreifingaraðila.
Rekjanleiki vöru gerir innköllun matvæla markvissari, ásamt því að gefa neytendum skýrar og nákvæmar upplýsingar um þau matvæli sem um er að ræða.
Samkvæmt væntanlegri reglugerð um matvælaöryggi, bera stjórnendur matvælafyrirtækja ábyrgð á að hægt sé að rekja vöru til framleiðanda eða dreifingaraðila og matvælaframleiðendur eru skyldugir til að geta tilgreint birgja og hafa skrá yfir þá aðila sem þeir afhenda vörur sínar.
Þær vörur sem reglugerðin nær yfir eru allar vörur og efni sem nota á eða notaðar verða í vinnsluferli matvæla, undirbúning eða meðferð þeirra. Þetta nær því yfir allar gerðir af matvælum, þar með talin aukefni og varnarefni fyrir matvæli.
Krafan um rekjanleika er byggð á upplýsingum um "eitt skref aftur – eitt skref fram ", sem þýðir að matvælafyrirtæki skulu setja upp kerfi eða verklagsreglur sem gerir þeim kleift að tilgreina birgja og kaupendur af þeirra vörum, þ.e.a.s. matvælafyrirtæki á að geta tilgreint:
i) Alla þá aðila, sem þeir hafa móttekið matvörur/hráefni frá. Þetta geta verið einstaklingar t.d. veiðimenn eða fyrirtæki.
ii) Öll þau fyrirtæki, sem taka við vörum fyrirtækisins. Krafan um rekjanleika gildir einnig um viðskipti milli smásala, t.d. dreifingaraðila og veitingahús.
Með þessu á að reyna að tryggja að hægt verði að rekja vöruna frá birgjum til viðskiptavina.
Matvælafyrirtæki þurfa þó ekki að tilgreina viðskiptavini þegar um er að ræða neytendur.
Matvælamál eru stór málaflokkur sem heyra undir 3 ráðuneyti, í reynd 4 ef við tökum manneldismálin með sem eðlilegt er. Æskilegt er að stjórnskipun matvælamála verði einfölduð og að málaflokkurinn heyri undir eitt ráðuneyti og ég lít svo á að við myndum næstu ríkisstjórnar verði að taka á þessu máli.
Erfðabreyttar matvörur er annar málaflokkur þar sem Neytendasamtökin hafa látið sig varða. Í dag eru erfðabreyttar matvörur ekki merktar sérstaklega. Ákveðið var að bíða með það þar til hlutaðeigandi gerð hefði verið tekin upp í EES samningnum en það hefur dregist af ástæðum sem eru íslenskum stjórnvöldum óviðkomandi. Vonandi greiðir úr því á næstunni en ég er alvarlega að íhuga að setja reglur um þessar merkingar óháð EES samningum enda lagstoð fyrir hendi.
Fólk á að eiga val um hvort það kaupir erfðabreytt matvæli eða ekki.
Auka þarf enn frekar gæði í smíði bygginga og tryggja þarf betur rétt kaupenda nýrra bygginga. Mikilvægt er í því sambandi að yfirumsjón eftirlits með öllum þáttum mannvirkjagerðar verði á könnu einnar stjórnsýslustofnunar; Byggingarstofnunar. Henni er ætlað að annast eftirlit m.a. með þeim þáttum sem snerta öryggi og heilnæmi bygginga svo og aðgengismál. Til að ná þessu fram verður lagt fram frumvarp á haustþingi til sérstakra mannvirkjalaga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að færa eins og kostur er undir eitt ráðuneyti og eina stofnun þau verkefni sem falla undir málaflokkinn.
Neytendasamtökin hafa látið sig varða siðræn viðskipti eða "Fair Trade". Þessi viðskipti tengjast einmitt hnattvæðingu og frjálsum viðskiptum og samskiptum milli fjarlægra landa sem alltaf eru að aukast. Í öllu starfi Sameinuðu Þjóðanna eru gerðar auknar kröfur um að þúsaldarmarkmiðin verði tekin inn í þau fjölmörgu alþjóðlegu verkefni sem unnin eru víðsvegar um heiminn. Siðræn viðskipti eru hluti af skyldum okkar Íslendinga gagnvart þeim þjóðum sem ekki eru komnar eins langt í iðnvæðingu og efnahagslegri þróun. Þar geta bæði neytendur jafnt sem stjórnvöld lagt sitt af mörkum með því að eiga viðskipti við fyrirtæki sem hafa vottun um að þar fari fram siðræn viðskipti, sem eiga að tryggja framleiðendunum sanngjarnt verð fyrir vörur sínar.
Kæru Þingfulltrúar. Það er ósk mín að Neytendasamtökin haldi áfram því góða starfi sem þau hafa sinnt af kappi á undanförnum árum neytendum til hagsbóta. Ég óska samtökunum velfarnaðar á komandi árum og vænti þess að eiga áfram ánægjulegt og árangursríkt samstarf við samtökin í framtíðinni.