Hoppa yfir valmynd
2. október 2006 Innviðaráðuneytið

Iceland Naturally af stað í Þýskalandi

Verkefnið Iceland Naturally, þar sem náttúra Íslands og matvæli eru kynnt á erlendum mörkuðum, hófst formlega í Þýskalandi síðastliðinn fimmtudag. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti ávarp við opnun jarðvísindasýningar í Frankfurt en á sýningunni er Ísland kynnt í sérstakri deild.

IN_i_Frankfurt0044
Ingimundur Sigurpálsson og Sturla Böðvarsson fengu leiðsögn um sýninguna hjá tveimur talsmönnum hennar.

Sýningin er haldin í Senkenberg safninu í Frankfurt og er skipulögð af safninu og jarðvísindastofnuninni í Potsdam. Sýningin mun síðar fara til fleiri borga í Þýskalandi. Meginefni sýningarinnar snýst um náttúruvá, ýmsar hættur sem steðja að mannkyni til dæmis vegna jarðhræringa, flóða, eldgosa og fellibylja, og hvernig rannsóknir beinast nú að því að geta spáð fyrir um slíkar náttúruhamfarir. Skrifstofa Ferðamálastofu í Frankfurt hafði veg og vanda að frágangi Íslandshluta sýningarinnar.

Viðstödd opnunina auk ráðherra voru meðal annarra sendiherra Íslands í Þýskalandi, Ólafur Davíðsson, Ingimundur Sigurpálsson, formaður stjórnar Iceland Naturally verkefnisins, Davíð Jóhannsson, forstöðumaður markaðsskrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu og Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu.

Samgönguyfirvöld hafa síðustu fimm árin lagt fjármagn í kynningarstarf í Ameríku undir heitinu Iceland Naturally og hefur sams konar verkefni verið í undirbúningi í Evrópu að undanförnu. Um miðjan október verður því hleypt af stað í London og í París í nóvember.

Í ávarpi sínu við opnun sýningarinnar rakti Sturla Böðvarsson meðal annars að löng og mikil samskipti Þjóðverja og Íslendinga. Hann sagði meðal annars:

,,Um leið og ég fanga sýningunni sem nú er opnuð leyfi ég mér að nota tækifærið og staldra aðeins við samskipti landa okkar á sviði ferðamála. Í báðum löndum hefur ferðaþjónustan kynnt viðskiptavinum sínum áhugaverða ferðakosti í hinu landinu. Erlendir ferðamenn sem til Íslands koma sækja helst í að upplifa hina sérstæðu náttúru og þar eru Þjóðverjar engin undantekning. Landið býður síbreytilega náttúru þar sem eldgos og jarðskjálftar, jöklar og ár, halda áfram landmótun sinni og ekki síður setur síbreytilegt veðrið sinn sérstaka svip á umhverfið hvar sem við förum.

Þýskaland verður sífellt mikilvægara markaðssvæði fyrir íslenska ferðaþjónustu enda hefur fjöldi þýskra ferðamanna til Íslands farið sívaxandi síðustu árin. Hátt í 40 þúsund Þjóðverjar hafa sótt Ísland heim ár hvert síðustu ár og eru þýskir ferðamenn í þriðja sæti á eftir Bandaríkjamönnum og Bretum.”

Eftir opnunarávörp var síðan boðið uppá íslenskan mat og tónlist.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta