Fjallaði um framtíð alþjóðlegs flugs
Dr. Assad Kotaite, fyrrverandi forseti fastaráðs Alþjóða flugmálastofnunarinnar, ICAO, flutti í dag fyrirlestur um framtíð alþjóðlegs flugs. Ræddi hann meðal annars um aukningu í flutningum á næstu árum og flugverndar- og flugöryggismál.
Dr. Assad Kotaite sagði að samkvæmt spám um fjölgun í farþegaflugi á næstu árum yrði hún rúm 6% í ár og rúm 5% á næsta og þarnæsta ári. Sagði hann ljóst að þessi hraða aukning kallaði á aðgerðir til að nýta loftrýmið með sem mestu öryggi. Þá sagði hann umhverfissjónarmið sívaxandi umfjöllunarefni í flugheiminum. Hann ræddi einnig nýlega samþykkt ICAO um úttektir á flugmálum aðildarlanda og að birtar yrðu niðurstöður slíkra úttekta og þeim miðlað milli aðildarlanda ICAO sem eru 189. Tilgangur úttektanna er að leiða í ljós hugsanlega vankanta á öryggismálum og hvort aðildarlönd fylgja ekki settum reglum og stöðlum.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sæmdi í dag dr. Assad Kotaite, fálkaorðunni við athöfn að Bessastöðum að viðstöddum samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni, og Þorgeiri Pálssyni flugmálastjóra.
Við upphaf flugþings sem haldið verður á morgun flytur dr. Assad Kotaite ávarp en yfirskrift þingsins er: Íslensk flugmál í brennidepli. Hefst það kl. 9 á Hótel Nordica í Reykjavík. Fluttir verða fyrirlestrar um kröfur samfélagsins til flugs, um tækifæri og þarfir flugsins, um skipan flugmála á Íslandi og um rekstur íslenska flugsamgöngukerfisins. Sjá nánar hér.