Hoppa yfir valmynd
3. október 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Framtíðartilhögun opinberrar skráningar og mats fasteigna

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Landskrá fasteigna var sett á laggirnar í ársbyrjun 2001 og var með henni stigið mikilvægt skref í þá átt að sameina helstu opinberu skrár um fasteignir í landinu og mynda þar með samhæft gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir, þinglýsingar fasteigna og mat fasteigna, ásamt tengingu við húsa- og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Tilgangurinn var að samræma verklag þeirra sem fengust við skráningu fasteigna og var samræming réttindaskráningar sýslumanna og fasteignaskrár Fasteignamats ríkisins talin mikilvægust. Á því var byggt við setningu laganna að myndun Landskrárinnar tæki um 4 ár og myndi að mestu koma í hlut eigenda fasteigna að greiða fyrir myndun hennar á þeim tíma, með sérstöku umsýslugjaldi, en eftir þann tíma myndu tekjustofnar vegna hennar verða skoðaðir upp á nýtt.

Í tengslum við heildarendurskoðun á fjármögnun Landskrár fasteigna hefur fjármálaráðuneytið ákveðið að einnig verði farið heildstætt yfir helstu kosti og galla núverandi tilhögunar í fasteignaskráningu og fasteignamati á vegum hins opinbera og lagt mat á það hvort ástæða sé til að breyta þeirri skipan sem verið hefur á ofangreindum málum. Í þessu sambandi má nefna að mikilvægi fasteignamats fyrir ríkið hefur breyst umtalsvert eftir að eignarskattar voru aflagðir og fasteignamat því ekki nema að litlu leyti stofn til skattheimtu ríkisins. Að sama skapi má segja að gildi fasteignamats og Landskrár fasteigna hafi aukist fyrir sveitarfélögin í landinu enda fasteignamat gjaldstofn vegna innheimtu fasteignaskatta auk þess sem þjónusta við sveitarfélög hefur verið efld á þann hátt að álagning umræddra gjalda fer nú fram í Landskránni.

Varðandi brunabótamat fasteigna er talin ástæða til að leita svara við þeirri grundvallarspurningu hvort nægileg rök standi til að halda í skyldutryggingu vegna bruna á fasteignum með hliðsjón af því að slík skylda virðist einsdæmi hérlendis og er t.a.m. ekki að finna meðal hinna Norðurlandaþjóðanna. Verði talið rétt að viðhalda slíkri vátryggingarskyldu er hins vegar eðlilegt að skoða hvort haga megi mati slíkra hagsmuna í viðskiptum aðila á markaði með öðrum og haganlegri hætti en með sérstakri aðkomu opinbers aðila.

Með hliðsjón af framangreindu hefur fjármálaráðuneytið ákveðið að setja á laggirnar sérstakan starfshóp ráðuneyta, sveitarfélaga og hagsmunaaðila til þess að fara yfir núverandi tilhögun þessara mála, leggja mat á það hvort ástæða sé til að breyta núverandi skipan og leggja fram tillögur að fjármögnun þess kerfis sem rétt þykir að viðhafa í framtíðinni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta