Hoppa yfir valmynd
4. október 2006 Matvælaráðuneytið

Skipulagsbreytingar á Verkefnasjóði sjávarútvegsins

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Skipulagsbreytingar á Verkefnasjóði sjávarútvegsins

Sjávarrannsóknir á samkeppnissviði

 

Verkefnasjóður sjávarútvegsins starfar samkvæmt lögum nr. 37 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla með síðari breytingum. Sjóðurinn er í vörslu sjávarútvegsráðuneytisins og skal verja fé úr honum til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs og til eftirlits með fiskveiðum.

 

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Jakob K. Kristjánsson formaður stjórnar deildar um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði kynntu í dag skipulagsbreytingar á Verkefnasjóði sjávarútvegsins.

 

Þær breytingar hafa verið gerðar á skipulagi sjóðsins að stofnuð hefur verið ný deild innan hans – deild um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði – og starfar sjóðurinn nú í tveimur deildum. Deild um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði veitir styrki til verkefna einstaklinga, fyrirtækja, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnana. Úthlutað er til verkefna sem efla rannsóknar- og þróunarverkefni á lífríki sjávar umhverfis Ísland og efla til lengri tíma litið sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og samkeppnishæfni sjávarútvegs. Til deildarinnar renna árlega í þrjú ár (2006, 2007 og 2008) kr. 25.000.000,- eða samtals 75.000.000,- af fé í eigu Verkefnasjóðsins. Auglýst verður í fjölmiðlum eftir umsóknum um styrki til sjávarrannsókna á samkeppnissviði sem allir geta sótt um. Styrkir verða veittir til eins árs í senn en heimilt er að veita framhaldsstyrk á grundvelli nýrrar umsóknar, enda standist verkefnið kröfur um framvindu og gæði.

 

Sjávarútvegsráðherra skipar þrjá menn í stjórn deildar um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði. Stjórnina skipa Jakob K. Kristjánsson sem er formaður stjórnar, Rannveig Björnsdóttir og Kristján G. Jóakimsson.

 

Markmiðið með stofnun deildar um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði er að gefa fleirum, ekki síst þeim sem starfa utan Hafrannsóknastofnunarinnar, færi á að sækja um styrk til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins til að stunda hafrannsóknir, en sá hópur hefur haft mjög takmarkaðan aðgang að styrkjum til þessa.

 

Reglur um stjórn Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og úthlutun úr sjóðnum má sjá á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins.

 Frá blaðamfundi v Verkefnasjóðs EKG og JKK

  Jakob K. Kristjánsson og Einar K. Guðfinnson sjávarútvegsráðherra

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 4. október 2006

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum