Fyrsta umræða fjárlaga 2007
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 25/2006
Í dag flutti fjármálaráðherra fjárlagaræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007. Auk þess að fjalla um meginatriði frumvarpsins um að tekjuafgangur ríkissjóðs verður mun betri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir, lagði fjármálaráðherra áherslu á eftirfarandi efnisatriði:
Til þess að Ísland sé samkeppnishæft er nauðsynlegt að hér sé gott heilbrigðis- og menntakerfi, stutt sé við rannsóknir og að ríkisreksturinn sé hagkvæmur og skilvirkur.
Undirstaða öflugs velferðar- og menntakerfis er atvinnulífið þar sem verðmætasköpunin fer fram. Sú efnahagsstefna sem hér hefur verið rekin hefur lagt þann grunn sem nauðsynlegur er. Lækkun skatta á fyrirtæki, opnun hagkerfisins og einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur leitt af sér öfluga atvinnustarfsemi.
Mikið hefur verið rætt um hvort aðhald í ríkisfjármálum hafi verið eða sé nægilegt og hvort Seðlabankinn sé látinn einn um að halda aftur af innlendri eftirspurn með vaxtaákvörðunum sínum. Ef litið er á tekjuafgang ríkissjóðs á þjóðhagsgrunni, en það er sá grunnur sem miðað er við í umræðu um efnahagsleg áhrif, þá var afgangurinn 5,6% af landsframleiðslu árið 2005 og verður 4% af landsframleiðslu á þessu ári. Í þessum tölum eru ekki áhrif af sölu eigna eða aðrir óreglulegir liðir, samt er samanlagður tekjuafgangur þessara tveggja ára rúmlega 100 milljarðar króna. Mjög fá ríki OECD geta státað af slíkum afgangi á ríkissjóði. Samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins um framleiðsluspennu í hagkerfinu hefur aðhald ríkisfjármála verið verulegt. Samanburður við sveiflujöfnun í öðrum ríkjum OECD sýnir að fjármálastjórn hér á landi hefur verið markvisst beitt til sveiflujöfnunar og að Ísland er í hópi þeirra ríkja sem hafa beitt hvað mest sveiflujafnandi fjármálastjórn undanfarinn áratug.
Fjármálaráðherra velti fyrir sér í ræðunni hve mikið aðhald sé nægilegt í ríkisfjármálum.
„Er raunhæft að reka ríkissjóð ár eftir ár með tuga milljarða króna afgangi? Er raunhæft að draga úr uppbyggingu í mennta- og heilbrigðismálum á meðan hagkerfið vex og eftirspurn eftir þessum gæðum er vaxandi? Hefði ekki átt að auka framlög til velferðarmála og hefði átt að standa á móti hækkun launa starfsmanna ríkisins til samræmis við aðra hópa? Getum við gengið lengra í því að lækka stofnkostnað þegar fjárfestingar ríkisins eru komnar niður fyrir 1% af landsframleiðslu? Ég tel að í ljósi þess mikla afgangs og aðhalds sem ríkissjóður hefur sýnt á undanförnum árum að vart hafi verið mögulegt að ganga lengra. Ég tel að leitun sé að ríkjum þar sem ríkissjóður hefur stutt eins vel við stefnu Seðlabankans og hefur verið gert hér á landi. Það sýna allir mælikvarðar.“
„Tímasetning skattalækkana hefur verið gagnrýnd. Lækkun tekjuskattshlutfalls einstaklinga á undanförnum árum er liður í að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins og er öðrum þræði aðgerð til að auka vinnuframboð á innlendum vinnumarkaði. Tölur um innlent vinnuframboð sýna að þar hefur orðið mikil aukning auk þess sem innflutningur vinnuafls hefur verið mikill. Þannig hefur dregið úr þrýstingi á vinnumarkaði vegna aðgerðanna og þær því stuðlað að jafnvægi. Síðasta og stærsta skref skattalækkana verður frá næstu áramótum og er tímasett með tilliti til stöðunnar í efnahagsmálum. Það hefur verið áhugavert að vera bæði gagnrýndur fyrir að lækka skatta og fá á sama tíma gagnrýni fyrir að hækka þá vegna sveiflujafnandi áhrifa skattkerfisins. Sveiflujöfnunin kemur vel fram í því að áætlað er að skatttekjur ríkissjóðs á næsta ári lækki um 4,4 milljarða í krónutölu frá þessu ári. “
„Til þess að efnahagslífið nái að vaxa er nauðsynlegt að byggja upp samgöngukerfið nokkurn veginn í takt við það ef koma á í veg fyrir óþarfa álag og kostnað vegna þess að mannvirki anna ekki umferðinni. Því er ekki mögulegt að fresta framkvæmdum nema í skamman tíma og takmörk eru fyrir því hve langt er hægt að ganga í niðurskurði framkvæmda ár hvert. Samgöngukerfið er nokkurskonar æðakerfi efnahagslífsins og bættar samgöngur stækka atvinnusvæði og geta eflt byggð og hagvöxt. Því er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að vera opin fyrir nýjum leiðum í byggingu, fjármögnun og rekstri samgöngukerfa því þar fara saman bæði einkahagsmunir og almannahagsmunir. Ég fagna nýjum hugmyndum og tillögum um rekstur samgöngumannvirkja t.d. á Norðurlandi og á Suðurlandi þar sem sýnt hefur verið fram á ábatann af bættum samgöngum og fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög hafa lýst sig tilbúin til að ráðast í ný verkefni með nýrri nálgun. Á vettvangi samgönguráðuneytisins er unnið að tillögum er snúa að einkaframkvæmd í samgöngukerfinu í samvinnu við forsætis- og fjármálaráðuneytið. Kanna þarf hvort ný tækni geti leitt til gjaldtöku í meira samræmi við raunverulega notkun á mannvirkjum í stað núverandi gjaldtöku í bensín- og olíugjaldi. Ný tækni gefur hugsanlega ný sóknarfæri í að fá fleiri að gerð og rekstri vegakerfisins en nú er og að samgöngur vaxi í takt við þörf og aukið umfang í efnahagslífinu. Lagt verður í vinnu við að kanna og meta möguleika á þessari nálgun við uppbyggingu og rekstur þjóðvegakerfisins.“
„Sterk staða ríkissjóðs kemur fram í því að ríkissjóður getur lækkað skatta á heimilin í landinu á næsta ári og stóraukið framlög til barnabóta og velferðarmála án þess að raska jafnvægi í ríkisfjármálum til skemmri eða lengri tíma. Að frátalinni ráðstöfun á söluandvirði Landssímans sést að enn er rými til að létta byrðum af heimilunum með enn frekari aðgerðum í skattamálum án þess að stefna ríkisfjármálum í hættu.“
Ræðu fjármálaráðherra er að finna í heild sinni á fjárlagavefnum fjarlog.is, en þar er einnig að finna fréttatilkynningu um helstu efnisatriði fjárlagafrumvarpsins.