Ávarp Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra á sýningu Lagnafélags Íslands
Ágætu afmælisgestir.
Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá tækifæri til þess að ávarpa ykkur hér í dag í tilefni 20 ára afmælis Lagnafélags Íslands um leið og ég óska félaginu til hamingju með afmælið. Umhverfisráðuneytið og Lagnafélag Íslands hafa átt með sér ágætis samstarf í gegnum tíðina en Lagnafélagið er fjórum árum eldra en ráðuneytið. Félagið hefur verið mjög virkt á sínu sviði í tengslum við byggingarmál m.a. gefið út fréttabréf og upplýsingarit og oftar en margir aðrir átt frumkvæði að því að koma með tillögur um breytingar s.s. á byggingarreglugerð. Félagið hefur m.a. staðið fyrir því að veita viðurkenningar fyrir lofsverð lagnaverk og innan þess starfar sérstakt gæðaráð. Af þessu má sjá að félagið hefur lagt á það megin áherslu að bæta vinnubrögð hjá efnissölum, hönnuðum sem og iðnaðarmönnum og enn fremur á aukna gæðavitund neytenda.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um þá byltingu sem varð á sínum tíma með tilkomu innanhússlagna og tilheyrandi þjónustubúnaðar. Sérstaklega tengdist þetta neysluvatnslögnum og hitalögnum. Það er ekki ýkja langt síðan að það þótti ekki sjálfsagt mál að vera með rennandi vatn í húsum. Í upphafi síðustu aldar urðu t.d. miklar umræður og deilur um nauðsyn lagningu vatnsveitu í Reykjavík og stóðu gegn henni ýmsir mætir menn í bæjarstjórn sem síðar hafa verið taldir framfarasinnaðir. Þróunin á þessu sviði hefur verið ör á síðustu áratugum og í dag eru gerðar allt aðrar kröfur um þjónustustig lagnakerfa og þjónustubúnaðar en fyrir örfáum áratugum s.s. til hitastýringar.
Mikilvægi þess að reglubundnu viðhaldi og viðgerðum sé sinnt verður seint ofmetið og með sama hætti verður að vanda til efnisvals hvort sem um er að ræða nýjar lagnir eða endurbætur. Það verður að segjast eins og er að það alltof algengt hér á landi að hafnar séu gagngerðar endurbætur á húsum jafnvel 5 - 10 ára gömlum ekki síst lagnakerfum og þá oft í framhaldi af vatnstjónum. Síðast þegar lagt var fram mat á kostnaði vegna vatnstjóna fyrir þremur árum var sá kostnaður metinn 1.5 milljarðar króna á ári. Hér er um að ræða svipaðan kostnað og vegna brunatjóna. Þetta er umhugsunarvert. Markvisst hefur verið unnið að því að bæta ástandið og þar hefur lagnafélagið gegnt veigamiklu hlutverki. Hins vegar þurfa fleiri að leggjast á árarnar því ég held að engum dyljist að betur má ef duga skal.
Ágætu afmælisgestir.
Eins og mörgum ykkar er kunnugt hefur að undanförnu verið unnið að endurskoðun skipulags- og byggingarlaga í umhverfisráðuneytinu og fyrir liggur nýtt frumvarp til mannvirkjalaga annars vegar og skipulagslaga hins vegar. Drög að þessum frumvörpum hafa verið kynnt hagsmunaaðilum og sem stendur er unnið að skoðun innsendra ábendinga. Eitt af megin markmiðum frumvarpsins um mannvirki byggir á því að taka upp notkun gæðakerfa en einmitt af því sviði hefur Lagnafélagið haslað sér völl. Ég vænti mikils af nýjum mannvirkjalögum sem og skipulagslögum og að umhverfisráðuneytið sem og aðilar sem að þessum málum starfa geti leitað til Lagnafélagsins um ráð og aðstoð við framkvæmdina. Vonir standa til þess að frumvörpin verði lögð fram á Alþingi fljótlega.
Að þessum orðum mæltum ítreka ég árnaðaróskir til félagsins í tilefni afmælisins og vænti þess að umhverfisráðuneytið muni áfram eiga farsælt samstarf við félagið með það að markmiði að bæta öryggi og endingu lagnakerfa.