Hoppa yfir valmynd
6. október 2006 Dómsmálaráðuneytið

Um útgáfu Þjóðskrár á kennitölum til erlendra ríkisborgara

Á undanförnum vikum hefur orðið nokkur umræða í fjölmiðlum um útgáfu Þjóðskrár á kennitölum til erlendra ríkisborgara. Hér er átt við útlendinga sem ekki hafa tekið upp fasta búsetu á Íslandi.

Árum saman hefur Þjóðskrá getað annað þessari útgáfu kennitalna innan fárra daga. Þetta breyttist í sumar vegna gríðarlegrar fjölgunar útlendinga sem til landsins hafa komið til vinnu. Á skömmum tíma varð bið eftir útgáfu kennitölu orðin meiri en fjórar vikur. Þjóðskrá hefur brugðist við þessum vanda og er afgreiðsla beiðna nú komin aftur í fyrra horf. Þó berast berast Þjóðskrá enn yfir eitthundrað beiðnir flesta daga.

Í þessu sambandi hefur Þjóðskrá tekið saman tölur um útgáfu kennitalna í nýliðnum ágúst og september. Á þessu tímabili fengu 3.946 útlendingar kennitölu, þar af 242 börn yngri en 18 ára. Í þessum tölum eru ekki þeir Norðurlandabúar sem fá strax lögheimili hér á landi við framvísun samnorræns flutningsvottorðs. Aðrir en Norðurlandabúar fá ekki lögheimili á Íslandi fyrr en Útlendingastofnun gefur út dvalarleyfisskírteini þeim til handa. Reynslan hefur sýnt að einhver hluti framangreindra útlendinga ílendist.

Hér verða tilgreind þau fimmtán lönd þar sem flestir útlendingar koma frá: Pólland 1.905, Þýskaland 245, Litháen 230, Svíþjóð 148, Lettland 130, Portúgal 126, Bandaríkin 107, Ítalía 76, Bretland 75, Danmörk 70, Frakkland 68, Tékkland 65, Spánn 45, Finnland 43 og Slóvakía 43.

Í umræðunni um útgáfu kennitalna til barna hefur gætt misskilnings. Þjóðskrá hefur til margra ára kappkostað að flýta afgreiðslu kennitalna til barna. Til þess að svo megi verða þurfa forsjármenn þeirra, ef þeir hyggjast dveljast í landinu lengur en þrjá mánuði, að sækja um dvalarleyfi fyrir börn sín hjá Útlendingastofnun og kennitölu hjá Þjóðskrá. Hafi slíkt verið gert, og fullnægjandi gögn fylgt með, gefur Þjóðskrá út kennitölu. Í flestum þeirra mála sem mesta umfjöllun fengu í fjölmiðlum höfðu forsjármenn barnanna ekkert aðhafst gangvart Þjóðskrá og Útlendingastofnun.

Reykjavík 6. okt 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta