Umhverfisráðherra heimsækir Íslenska járnblendifélagið
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra heimsótti í gær Íslenska járnblendifélagið á Grundartanga ásamt starfsfólki úr umhverfisráðuneytinu og fulltrúa frá Umhverfisstofnun. Ingimundur Birnir, framkvæmdastjóri ÍJ kynnti ráðherra helstu þætti í rekstri fyrirtækisins. Að sérstakri ósk ráðherra var rætt um mengunarvarnir verksmiðjunnar en umhverfisráðuneytinu og Umhverfisstofnun hafa borist fjölmargar ábendingar frá almenningi vegna reykmekkjar sem leggur öðru hvoru frá verksmiðjunni. Forsvarsmenn fyrirtækisins lögðu áherslu á að losunin væri langt undir þeim mörkum sem kveðið er á um í starfsleyfi verksmiðjunnar en tilkynntu jafnframt að hafin væri lagfæring á reykhreinsibúnaði sem draga ætti verulega úr losun reyks frá henni.
Umhverfisstofnun mun hér eftir sem hingað til hafa reglubundið eftirlit með rekstri Íslenska járnblendifélagsins. Í því felast tvær skoðanir á ári og eftirlitsmælingar sem fara fram þriðja hvert ár eins og kveður á um í reglugerð um mengunareftirlit. Að auki fer samkvæmt starfsleyfi fram umfangsmikið innra eftirlit og umhverfisvöktun sem ÍJ ber ábyrgð á þar sem mældir eru þættir eins og ryk, SO2 og vatn sem kemur frá starfseminni. Árlega ber ÍJ að skila skýrslu um rekstur hreinsivirka, reyklosanir, rykframleiðslu, magn S í hráefni og nýtingu og förgun framleiðsluúrgangs. Ef niðurstöður mælinga eru ekki í samræmi við kröfur starfsleyfis ber að tilkynna það til Umhverfisstofnunar. Þá er einnig haldinn árlega fundur ÍJ, Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis og Vesturlands þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum mengunarmælinga, rekstri hreinsibúnaðar og öðrum málum tengdum mengunarvörnum. Ef þar kemur í ljós að mengun er yfir mörkum eða ef reyklosun stefnir í að vera yfir mörkum er ÍJ skylt í samráði við Umhverfisstofnun að gera áætlun innan eins mánaðar um hvernig dregið verði úr mengun.