Innflutningur í september
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 5. október 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu reyndist vöruskiptahalli vera 7,7 milljarðar í september.
Vöruskiptahallinn hefur því dregist saman tvo mánuði í röð. Stöðug aukning álútflutnings og hægari aukning innflutnings, sérstaklega á fjárfestingarvörum á mestan þátt í minnkandi halla. Flutt var út fyrir 22,3 milljarða en innflutningur var 30 milljarða króna virði.
Ef bráðabirgðatölurnar, sem byggðar eru á upplýsingum um innheimtu virðisaukaskatts, eru skoðaðar nánar sést að verulega hefur hægt á aukningu innflutnings milli ára og hefur staðvirtur þriggja mánaða innflutningur aukist um 3% frá fyrra ári miðað við um 40% aukningu í sama mánuði árið 2005.
Engu að síður er innflutningur í september tæpum tveimur milljörðum meiri en í ágúst. Aukningin skýrist að langmestu leyti af innflutningi eldsneytis en sá liður er afar óreglulegur milli mánaða.
Innflutningur fjárfestingarvara heldur áfram að dragast saman þriðja mánuðinn í röð og lækkar innflutningsvirði hrá- og rekstrarvara einnig umtalsvert frá fyrri mánuði. Innflutningur á varanlegum neysluvörum (t.d. heimilistækjum) minnkar milli mánaða en innflutningur á fólksbílum er á svipuðu róli og í ágúst.