Hoppa yfir valmynd
9. október 2006 Innviðaráðuneytið

Lækkun virðisaukaskatts í þágu ferðaþjónustu

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun á virðisaukaskatti á matvælum, veitingaþjónustu og hótelgistingu er í þágu íslenskrar ferðaþjónustu rétt eins og landsmanna allra. Talsmenn ferðaþjónustunnar hafa lengi barist fyrir lækkuðu matvælaverði og segir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra að með þessu hafi verið komiö til að móta til móts við þessi sjónarmið.

Helstu atriðin í ákvörðun ríkisstjórnarinnar er að frá og með 1. mars á næsta ári lækkar virðisaukaskattur af veitingaþjónustu úr 24,5% í 7%, af matvælum úr 14% í 7% og af ýmiss konar þjónustu og vörum, þar með talinni hótelgistingu, einnig úr 14% í 7%. Einnig falla niður vörugjöld af innlendum og innfluttum matvælum öðrum en sykri og sætindum og almennir tollar á innfluttum kjötvörum úr öðrum kafla tollskrár verða lækkaðir um allt að 40%, einnig frá 1. mars 2007. Einnig lækkar virðisaukaskattur af veggjaldi Hvalfjarðarganga úr 14% í 7%.

Áætlað er að þessar aðgerðir geti leitt til um 16% lækkunar á verði matvæla og er talið að með þeirri lækkun muni matvælaverð á Íslandi verða sambærilegt við meðalverð á matvælum á Norðurlöndum. Samtök ferðaþjónustunnar hafa þegar fagnað þessari ákvörðun. ,,Þetta er eitt allrastærsta skref sem stjórnvöld hafa stigið fyrir íslenska ferðaþjónustu og á eftir að hafa mikil áhrif til framtíðar,” segir á vef Samtaka ferðaþjónustunnar.

Heimsóknir erlendra ferðamanna til Íslands hafa síðustu áratugina lagt grundvöll að sífellt öflugri atvinnugrein þar sem er íslensk ferðaþjónusta. Gjaldeyristekjur í ferðaþjónustu eru kringum 12% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.  



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta