Hoppa yfir valmynd
11. október 2006 Innviðaráðuneytið

Atlantsskip kannar arðsemi strandflutninga

Á fundi í samgönguráðuneytinu í gær með fulltúum skipafélaga, Samtaka verslunar og þjónustu og Vegagerðarinnar þar sem rætt var um þróun í landflutningum og strandsiglingum upplýsti Gunnar Bachmann, framkvæmdastjóri Atlantsskipa, að fyrirtækið væri að kanna arðsemi siglinga milli Reykjavíkur og Akureyrar og jafnvel fleiri hafna. Fulltrúar Eimskips og Samskips sögðu kröfur markaðarins vera sífellt meiri tíðni en ekkert væri þó því til fyrirstöðu að hefja strandsiglingar á ný ef forsendur breyttust.

Gunnar Bachmann segir að forráðamenn Atlantsskipa hafi síðustu vikur og mánuði kannað möguleika á strandsiglingum út frá Reykjavík. Búið væri að ganga frá helstu atriðum við samstarfsaðila á Akureyri og nú væru fleiri viðkomustaðir í athugun, til dæmis Ísafjörður. Hann sagði hugmyndina að sigla vikulega og ekki væri ætlunin í bili að siglingarnar myndu ná umhverfis landið. Forsendur þess að unnt sé að fara af stað segir hann vera að ná samningum um flutninga á 2.600 gámum á ári. Flutningaskipið Geysir, sem nú er Ameríkusiglingum, lýkur verkefnum sínum í janúar á næsta ári og sagði Gunnar mögulegt að hefja strandsiglingarnar uppúr því ef allt gengi upp.

Á fundinum í samgönguráðuneytinu var rætt vítt og breitt um flutningaleiðir og ítrekuðu fulltrúar Eimskips og Samskips orð sín frá fyrri fundi að erfitt gæti reynst að fá viðskiptavini til að nýta sér strandsiglingar á ný. Krafa markaðarins væri sífellt meiri tíðni og nú væri unnt að dreifa vörum til allra helstu þéttbýlisstaða landsins um landflutninganet fyrirtækjanna fimm daga vikunnar. Þeir sem láti flytja dagvöru óski eftir daglegri þjónustu og því verði slík vara helst flutt á vegum. Ítrekuðu þeir líka að tæknilega væri ekkert því til fyrirstöðu að taka upp strandsiglingar á ný ef forsendurnar breyttust.

Fram kom í máli fulltrúa Vegagerðarinnar að uppbygging þjóðvegakerfisins í dag yrði að miðast við 7,5 til 8,5 m breiða vegi til að standast kröfur um öryggi og afköst og burðarþol væri miðað við 11,5 tonna öxulþunga. Eldri vegir landsins hefðu verið byggðir eftir öðrum stöðlum og væri smám saman verið að endurnýja þá og styrkja.

Þá kom fram í máli talsmanna flutningafyrirtækjanna að brýnt væri að auka vetrarþjónustu á vegum, ekki síst á Austurlandi, á Norður- og Austurlandi þyrfti að ráðast í breikkun og styrkingu helstu vega, fjölga þyrfti klifurreinum til að greiða fyrir umferð og rýmka þyrfti hæðartakmörkin sem í dag eru 4,20 m.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta