Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember
Frá því að ákveðið var að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, yrði dagur íslenskrar tungu ár hvert hefur menntamálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það, í góðu samstarfi við skóla, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga enda virðist dagur íslenskrar tungu hafa náð fótfestu í samfélaginu.
Hér með er hvatt til þess að landsmenn hugi nú, eins og undanfarin ár, að því að nota 16. nóvember eða dagana þar í kring til að hafa íslenskuna í öndvegi. Hægt er að minnast dagsins með margvíslegu móti, t.d. upplestri, ritunarsamkeppni, verðlaunum og viðurkenningum, handritasýningum, samkomum af ýmsum toga og tónlistarflutningi svo að fátt eitt sé nefnt.
Dæmi um viðburði undanfarin ár:
Leikskólar: Samverustund á sal í tilefni dagsins; unnið sérstaklega með íslenskt mál eina viku; rætt um skáldið Jónas Hallgrímsson; börnunum kenndar vísur og söngvar og búin til leikrit út frá ljóðum eða sögum Jónasar; haldinn sérstakur bókadagur; nemendur úr grunnskóla koma í heimsókn og lesa fyrir leikskólabörnin.
Grunnskólar: Stóra upplestrarkeppnin hefur hafist formlega á degi íslenskrar tungu; eldri börnin koma í bekki yngri barna og lesa upp sögur og ljóð; verðlaunahafar úr upplestrarkeppni síðasta árs lesa upp; ljóða- og smásagnakeppni; ljóð Jónasar Hallgrímssonar kynnt; íslenskir málshættir sérstaklega athugaðir.
Framhaldsskólar: Rithöfundar koma í heimsókn og lesa upp; ljóðaupplestur undir handleiðslu íslenskukennara; sérstök verkefni í áföngum í íslensku; kórsöngur.
Bókasöfn: Upplestur úr bókum; handritasýningar; bókakynningar.
Íslensk fyrirtæki hafa í auknum mæli gefið gaum að degi íslenskrar tungu í kynningarstarfi og öðrum þáttum.
Háskólar og Íslensk málnefnd: Fundir og samkomur.
Vefur dags íslenskrar tungu er: http://mrn.stjr.is/malaflokkar/Menning/dit/.
Þar er m.a. hugmyndabanki kennara og upplýsingar um Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar sem menntamálaráðherra afhendir árlega 16. nóvember.
Menntamálaráðuneytið hefur falið Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að annast ýmsa verkþætti í tengslum við viðburði á degi íslenskrar tungu 2006. Viðtakendum þessa bréfs er velkomið að hafa samband, annaðhvort í tölvupósti, [email protected], eða í s. 552 8530, 892 5285 ef spurningar vakna og einnig væri gagnlegt að heyra frá sem flestum um það sem stendur til að gera í tilefni dagsins.
f. h. Menntamálaráðuneytis f.h. Stofnunar Árna Magnússonar í
íslenskum fræðum