Fundur utanríkisráðherra með forseta Alþjóðabankans
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 068
Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í dag fund með Paul Wolfowitz forseta Alþjóðabankans. Á fundinum voru rædd málefni sem eru ofarlega á baugi í starfsemi bankans, þ.á.m. aukin áhersla hans á orkumál og baráttu gegn spillingu. Rætt var um tvíhliða samstarf Íslands og Alþjóðabankans á sviði fiskimála og endurnýjanlegra orkugjafa. Þá var mikilvægi þátttöku kvenna í uppbyggingu þróunarlanda áréttað.
Alþjóðabankinn, og undirstofnanir hans, eru stærsta þróunarstofnun heims. Aðstoð bankans við fátækustu þróunarlöndin nemur um 10 milljörðum Bandaríkjadala árlega og lánveitingar til millitekjulanda um 14 milljörðum dala. Á árinu 2006 leggja íslensk stjórnvöld um 275 m.kr. til verkefna á vegum Alþjóðabankans. Stærstur hluti framlagsins, 205 m.kr., rennur til aðstoðar Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) í fátækustu þróunalöndunum. Auk þess styðja íslensk stjórnvöld fjölþjóðleg samstarfsverkefni bankans á sviði fiskimála, kallað PROFISH, og á sviði orkumála, kallað ESMAP.
Þá hafa íslensk stjórnvöld aukið samstarfið við Alþjóðalánastofnunina (IFC), sem er sú dótturstofnun Alþjóðabankans sem stuðlar að eflingu einkaframtaks í þróunarlöndunum, annað hvort með beinum fjárfestingum eða lánveitingum til fyrirtækja. Íslenskur ráðgjafasjóður er starfræktur á vegum IFC, auk þess sem íslensk stjórnvöld hafa fjármagnað sérstaklega úttekt IFC á viðskiptaumhverfi í tuttugu smáríkjum.