Hoppa yfir valmynd
12. október 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálaráðherra víkur ekki sæti

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 26/2006

Öryrkjabandalagið hefur krafist þess að fjármálaráðherra, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og aðrir starfsmenn ráðuneytisins, víki sæti við meðferð máls er lýtur að staðfestingu samþykkta Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda frá því fyrr á þessu ári. Í tilkynningu bandalagsins, dags. 10. okt. s.l., er vísað til þess að ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins sé formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda og því vanhæfur við meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Vegna umræddrar kröfu Öryrkjabandalagsins vill fjármálaráðuneytið taka eftirfarandi fram.

Fyrir liggur að starfsmenn ráðuneytisins hafa fyrir hönd ráðherra staðfest breytingar á samþykktum nokkurra lífeyrissjóða, m.a. Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, en breytingarnar lúta m.a. að ákvæðum um örorkulífeyrisgreiðslur. Um staðfestingar á breytingum samþykkta er fjallað í 28. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þar kemur fram að allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs skuli tilkynna fjármálaráðherra og að þær öðlist ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest að þær fullnægi ákvæðum laganna og ákvæðum gildandi samþykkta fyrir viðkomandi lífeyrissjóð, að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Staðfesting ráðuneytisins á breytingum samþykkta fer því eftir lögákveðnu ferli þar sem annað stjórnvald leggur efnislegt mat á breytingarnar hverju sinni. Samkvæmt framansögðu er ljóst að svigrúm fyrir ómálaefnaleg sjónarmið við afgreiðslu mála er lúta að staðfestingum á breytingum á samþykktum lífeyrissjóða er ekki til staðar. Sú staða að ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins sé jafnframt stjórnarformaður þess lífeyrissjóðs sem biður um staðfestingu fjármálaráðuneytisins á breytingum á samþykktum sjóðsins getur því ekki að neinu leyti haft áhrif á þau sjónarmið er að baki slíkri staðfestingu liggja.

Þá vill ráðuneytið benda á að ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins ritaði ekki undir staðfestingu á breytingu á samþykktum Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Aðrir starfsmenn ráðuneytisins gerðu það fyrir hönd ráðherra. Hið staðlaða orðalag ,,fyrir hönd ráðherra” merkir að þeir sem skrifa undir viðkomandi bréf gera það í umboði ráðherra. Þar sem 3. málsl. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga kveður skýrt á um að verði undirmaður vanhæfur til meðferðar máls leiði það ekki til þess að næstu yfirmenn hans verði vanhæfir til meðferðar þess. Þar sem ráðherra er ekki vanhæfur til meðferðar þess máls er hér um ræðir geta undirmenn hans því eðli máls samkvæmt ekki verið vanhæfir til að afgreiða það fyrir hönd ráðherra.

Burtséð frá ofangreindu, verður ekki séð að í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í umræddu máli að ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins eigi sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytisstjóri er skipaður af fjármálaráðherra sem stjórnarformaður sjóðsins á grundvelli laga nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Hlutverk stjórnarmanna er lögákveðið samanber ákvæði 4. gr. fyrrgreindra laga og ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Með vísan til framangreindra raka hefur fjármálaráðherra hafnað kröfu Öryrkjabandalagsins um að fjármálaráðherra, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og aðrir starfsmenn ráðuneytisins víki sæti við meðferð máls er lýtur að staðfestingu á breytingum á samþykktum Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta