Heimsókn forsætisráðherra til Washington lýkur í dag
Geir H. Haarde forsætisráðherra átti í gær fund með Richard G. Lugar formanni utanríkismálanefndar öldungadeildar bandaríska þingsins. Fundurinn fór fram á skrifstofu Lugar í þinginu. Forsætisráðherra gerði þingmanninum grein fyrir nýgerðu samkomulagi Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál og ræddu þeir framtíðarsamskipti ríkjanna.
Síðdegis flutti forsætisráðherra fyrirlestur um samskipti Íslands og Bandaríkjanna í Johns Hopkins háskólanum í Washington, en hann stundaði nám í alþjóðastjórnmálum við skólann og útskrifaðist þaðan árið 1975.
Heimsókn forsætisráðherra til Washington lýkur síðdegis, en í dag á ráðherra, ásamt dómsmálaráðherra, fund með forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.
Reykjavik 12. október 2006