Fjölbreytt dagskrá á þingi Hafnasambands sveitarfélaga
Strandsiglingar, uppbygging hafna, markaðssetning fyrir skemmtiferðaskip, vegir, flutningar og gjaldskrármál voru meðal umræðuefna á ár hafnasambandsþingi á Höfn í Hornafirði sem haldið er í gær og í dag. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði meðal annars í setningarræðu sinni á þinginu að kanna ætti hvaða aðgerða þurfi að grípa til vegna hafna sem ekki hafa rekstrargrundvöll.
Þá greindi Sturla Böðvarsson frá þeirri nýjung sem er mat á umhverfisáætlun sem fylgir samgönguáætlun nú í fyrsta sinn. Sagði hann að síauknar kröfur væru uppi varðandi umhverfið og náttúruna og væri umhverfismat áætlana svar við þeim kröfum sem hann taldi af hinu góða. Samgönguráðherra lagði áherslu á að viðhafa yrði vönduð vinnubrögð við undirbúning og alla mannvirkjagerð á sviði vegamála, hafnamál og flugmála. Íslendingar ættu að geta staðið í fremstu röð á þessu sviði. Umrædd skýrsla vegna umhverfismats samgönguáætlunar er nú í kynningu og er frestur til athugasemda til 20. nóvember.
Fram kom í máli ráðherra að þær hafnir sem misst hafa tekjur vegna minnkandi umsvifa í sjávarútvegi væru tekjulitlar. Sagði hann það vera verkefni næstu missera að kanna til hvaða aðgerða unnt væri að grípa vegna hafna sem ekki hefðu rekstrargrundvöll.
Samgönguráðherra ræddi einnig strandsiglingar og þá hugmynd forráðamanna Atlantsskipa að hefja flutninga með skipum til nokkurra hafna landsins. Tók hann fram að ekki væri á dagskrá að nýta fjármuni úr ramma samgönguráðuneytisins til að greiða niður flutninga með skipum; stuðningur hins opinbera lægi í styrkjum til hafnargerðar eins og lög kveða á um.
Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga, skýrði frá yfirliti um fjárhag og gjaldskrár hafna á síðasta ári. Hafði hann tekið saman yfirlit um fjárhag Faxaflóahafna og 15 úrtakshafna. Sagði hann tekjur úrtakshafnanna 15 hafa hækkað um 5,5% milli 2004 og 2005 en rekstrarkostnaður aukist um 12% og heildarafkoman því versnað. Tekjur Faxaflóahafna höfðu hækkað um 24% en rekstrarkostnaður um 6,2%.
Fram kemur í yfirlitinu að staða hafna er mjög misjöfn og þannig eru heildarskuldir hafnarinnar í Reykjanesbæ kringum 1,9 milljarðar króna, skuldir Hafnarfjarðarhafnar rúmar 700 milljónir og skuldir hafna Snæfellsbæjar um 55 milljónir króna.
Meðal fyrirlestra var erindi Ágústs Ágústssonar, markaðsstjóra Faxaflóahafna, um markaðssetningu hafna gagnvart skemmtiferðaskipum og ferðaþjónustu og erindi Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, sem hann nefndi hugleiðingar um hafnir, vegi og flutninga.
Styrmir ræddi hafnir í upphafi og sagði þær yfirleitt vera merki um frumkraft og líf í þéttbýlinu og þær hefðu alltaf ákveðið aðdráttarafl. Þær hefðu áfram miklu hlutverki að gegna fyrir sjávarútveg og almenna flutninga. Þá fjallaði hann um strandsiglingar og flutninga á vegum og lýsti þeirri skoðun sinni að síaukinn akstur flutningabíla um þjóðvegina skapaði vegfarendum stórfellda hættu. Ritstjórinn efaðist um að unnt væri að snúa aftur til strandsiglinga. Meðal annars væri krafa sjávarútvegsfyrirtækja sú að fiskur væri fluttur til vinnslu eða útflutnings um landið þvert og endilangt eins hratt og kostur væri. Varpaði Styrmir fram þeirri sýn að til að draga úr áhættu vegna flutninga yrði að hefja nýtt átak í vegagerð og leggja í það verulega fjármuni. Stefna ætti að því að hluti hringvegarins yrði fjórar akreinar og að sett yrði fram tímasett áætlun um verkefnið. Sagði hann tímabært að fjallað yrði um þessa lausn. Einnig sagði hann brýnt að vinna jafnt og þétt að jarðgangagerð.
Benda má á að þessi hugmynd er í samræmi við þá framtíðarsýn sem stjórnvöld hafa verið að undirbúa í samgönguáætlun og yfirlýsingar samgönguráðherra um mögulega einkaframkvæmd þessara stærstu verkefna.
Af öðrum erindum á þingi Hafnasambands sveitarfélaga má nefna umfjöllun Steinþórs Péturssonar, aðstoðarmanns bæjarstjóra Fjarðabyggðar, um nýja höfn í Fjarðabyggð. Eftir síðustu sameiningu í sveitarfélaginu hefði það nú yfir að ráða sex höfnum og framundan væri mikil uppbygging, ekki síst við höfnina við álverið í Reyðarfirði.
Gísli Viggósson, forstöðumaður rannsóknar- og þróunarsviðs Siglingastofnunar, flutti erindi um siglingar í norðurhöfum og Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, flutti erindi um samstarf eða sameiningu hafna.
Einnig voru flutt nokkur erindi er vörðuðu starfsemi og skipulag Hafnasambandsins og endurskoðun hafnalaga.