Fundur vinnumálaráðherra á Norðurlöndum
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, sat í vikunni fund vinnumálaráðherra á Norðurlöndum sem haldinn var í Ósló.
Á fundinum greindi ráðherra frá stöðu á vinnumarkaði á Íslandi. Athygli vakti á fundinum að atvinnuleysi mælist nú aðeins um 1% að landsmeðaltali hér á landi og er enn lægra í einstökum landshlutum.
Þá greindi ráðherra frá umfangi flæðis erlends vinnuafls til Íslands og samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins við að efla eftirlit á vinnumarkaði við breyttar aðstæður.
Fram kom að önnur Norðurlönd vinna nú að svipuðum verkefnum og fulltrúar allra landanna eru sammála um að varðveita beri styrkleika vinnumarkaðar á Norðurlöndum.
Þá komu fram áhugaverðar upplýsingar um aðgerðir annarra Norðurlanda í því efni, einkum Finna og Norðmanna, en flæði erlends vinnuafls til Noregs hefur verið umtalsvert undanfarin misseri.