Afhending trúnaðarbréfs
Hannes Heimisson, sendiherra, afhenti 12. þ.m. Viktor Jústsjenkó, forseta Úkraínu, trúnaðarbréf sem sendiherra Íslands í Úkraínu með aðsetur í Helsinki. Fór afhendingin fram í embættisbústað forsetans í höfuðborginni Kiev.
Sendiherra átti einnig fundi með Borys Tarasyuk, utanríkisráðherra Úkraínu og embættismönnum utanríkisráðuneytisins. Á fundinum með utanríkisráðherranum var meðal annars rætt um undirbúning opinberrar heimsóknar Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra til Úkraínu 6. - 9. nóvember næstkomandi og vaxandi samskipti ríkjanna. Ráðherrann var einnig upplýstur um áherslur Íslands í framboði til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Í för með utanríkisráðherra verður fjölmenn viðskiptasendinefnd. Útflutningsráð og utanríkisráðuneyti vinna að undirbúningi heimsóknar viðskiptasendinefndarinnar í nánu samstarfi við Kostyantyn Malovanyy, kjörræðismann Íslands í Kiev.
Fjárfestingar Íslendinga í Úkraínu hafa aukist mjög að undanförnu, einkum með kaupunum á Bank Lviv, banka í samnefndri borg í vesturhluta Úkraínu undir forystu Margeirs Péturssonar, stjórnarformanns MP fjárfestingarbanka.