Hvalveiðar
Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneytinu
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur í dag tekið ákvörðun í samráði við ríkisstjórnina um veiðiheimildir vegna hvalveiða á fiskveiðiárinu 2006/2007. Er þessi ákvörðun tekin á grunni stefnu stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins og með hliðsjón af ályktun Alþingis um hvalveiðar frá 10. mars 1999.
Samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra verða hvalveiðar takmarkaðar við 9 langreyðar og 30 hrefnur, til viðbótar þeim 39 hrefnum sem teknar verða árið 2007 við framkvæmd vísindaáætlunar Hafrannsóknastofnunarinnar, en þá verður því verki lokið sem hófst árið 2003 að safna 200 dýra úrtaki.
Samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar myndu árlegar veiðar á allt að 400 hrefnum og 200 langreyðum samrýmast markmiðum um sjálfbæra nýtingu.
Vísindanefndir bæði Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og Norður-Atlantshafs sjávarspendýraráðsins (NAMMCO) hafa samþykkt samhljóða stofnstærðarmat fyrir hrefnu og langreyði í miðju Norður-Atlantshafi (Central North Atlantic). Samkvæmt þeim niðurstöðum eru um 25.800 langreyðar á því svæði og um 43.600 hrefnur á landgrunninu við Ísland, en nálægt 70.000 á hafsvæðinu öllu. Umfang þeirra veiða sem nú eru heimilaðar nemur því innan við 0,2% af hrefnum á landgrunninu og innan við 0,04% af langreyðum í miðju Norður-Atlantshafi.
Í kjölfar ályktunar Alþingis hafa ýmis skref verið tekin til að hefja veiðar á nýjan leik. Meðal annars gekk Ísland í Alþjóðahvalveiðiráðið og hefur verið virkur þátttakandi í að reyna að koma þar á stjórnkerfi fyrir sjálfbærar hvalveiðar, en án árangurs. Hrefna hefur verið veidd við framkvæmd vísindarannsókna og umfangsmiklar talningar á hvölum hafa farið fram á íslenska hafsvæðinu, svo nokkuð sé nefnt. Sumarið 2007 er gert ráð fyrir að Hafrannsóknastofnunin efni til viðamikillar talningar á hvölum á Íslandsmiðum og vísindaveiðum á hrefnu ljúki.
Helstu hvalveiðiþjóðirnar innan Alþjóðahvalveiðiráðsins eru Bandaríkin, Rússland, Noregur, Japan og Grænland. Líkt og Ísland stunda þær allar löglegar og sjálfbærar veiðar í samræmi við reglur Alþjóðahvalveiðiráðsins.
Kynningarefni á ensku hefur verið útbúið vegna ákvörðunarinnar. Hægt er að nálgast það á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins. Sendiráð Íslands erlendis munu taka fullan þátt í að kynna sjónarmið Íslands erlendis og svara fyrirspurnum sem kunna að koma í kjölfar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 17.október 2006.