Framtíðarsýn í málefnum grunnskólans- ný grunnskólalög
Menntamálaráðuneytið heldur laugardaginn 25. nóvember nk. málþing á Hótel Nordica í Reykjavík frá kl. 9.30-13.00 um framtíðarsýn í málefnum grunnskólans og ný grunnskólalög. Málþingið er haldið í tengslum við heildarendurskoðun á grunnskólalögum og er liður í víðtæku samráði um ný grunnskólalög til að ná sem bestri samstöðu um framtíðarsýn í málefnum grunnskólans og leiðarljós nýrra grunnskólalaga. Málþingið er einkum ætlað fulltrúum frá sveitarfélögum, skólastjórum, kennurum, foreldrum og ýmsum hagsmunaaðilum sem koma að málefnum grunnskólans og öðru áhugafólki um skólamál. Á málþinginu verður staðan í endurskoðun grunnskólalaga kynnt. Síðan verður rætt í hópum um nokkur helstu álitamálin í tengslum við endurskoðun grunnskólalaga og lögð áhersla á virkni þátttakenda. Þeir sem hyggjast taka þátt í málþinginu eru beðnir að skrá sig hjá congress.is. Hægt er að beina fyrirspurnum vegna þingsins til Congress Reykjavík.
Málþingið er öllum opið og þátttakendum að kostnaðarlausu.