Hoppa yfir valmynd
18. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp til nýrra heildarlaga um gatnagerðargjald

Félagsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um gatnagerðargjald.

Frumvarpið byggir á tillögum nefndar sem skipuð var fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, umhverfisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Hlutverk nefndarinnar var að endurskoða lög um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, til að eyða óvissuþáttum sem upp höfðu komið við framkvæmd laganna, ekki síst um það hvort gatnagerðargjald teldist þjónustugjald eða skattur.

Í lögum nr. 17/1996 um gatnagerðargjald og lögskýringargögnum með þeim er gengið út frá því að gatnagerðargjald teljist til þjónustugjalda. Studdist sú túlkun einnig við eldri réttarframkvæmd. Á undanförnum árum hefur hins vegar verið á það bent, meðal annars í skrifum fræðimanna, að gatnagerðargjald beri viss einkenni skatta. Jafnframt hefur á þetta reynt í úrskurðum félagsmálaráðuneytisins og fyrir dómstólum, meðal annars í dómi Hæstaréttar í máli nr. 415/2005 þar sem Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um fjárhæð gatnagerðargjalds lyti hefðbundnum skattalegum sjónarmiðum. Brýnt er að skýrt sé ákvarðað í lögum um gatnagerðargjald á hvaða grunni gjaldtökuheimildin er reist og er það markmið frumvarps þessa að eyða allri óvissu um slíkt.

Þá hefur einnig reynt á það fyrir dómstólum og í úrskurðum félagsmálaráðuneytisins hvort heimilt sé að innheimta gatnagerðargjald í dreifbýli, en ekki er kveðið með skýrum hætti á um hvort slíkt sé heimilt eða óheimilt í núgildandi lögum. Með frumvarpinu er tekinn af allur vafi um það að gatnagerðargjald verði aðeins lagt á byggingar í þéttbýli, sem er í samræmi við dómaframkvæmd.

Að lokum er það einnig markmið með frumvarpi þessu að einfalda útreikninga á gatnagerðargjaldi, meðal annars með það fyrir augum að samræma gjaldtökuna milli einstakra sveitarfélaga og auðvelda samanburð.

Í frumvarpinu er sett fram sú grundvallarskilgreining að gatnagerðargjald teljist skattur og sömuleiðis kemur þar fram að ráðstöfun gatnagerðargjalds sé háð tilteknum takmörkunum, þ.e. að gatnagerðargjald sé markaður tekjustofn.

Til að einfalda útreikninga á gatnagerðargjaldi, meðal annars með það fyrir augum að samræma gjaldtökuna milli einstakra sveitarfélaga og auðvelda samanburð, er lagt til að eingöngu verði miðað við flatarmál byggingar við útreikning gatnagerðargjalds í stað þess að veita sveitarstjórnum val milli flatarmáls lóðar, rúmmáls húss og fermetrafjölda húss eða blöndu af þessum leiðum, líkt og gert er í núgildandi lögum. Breytingin er ekki talin skerða svigrúm sveitarfélaga til álagningar gatnagerðargjalds þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að sveitarfélög hafi rúmar heimildir til reglusetningar um gatnagerðargjald, meðal annars með tilliti til heimildar til ákvörðunar álagningarprósentu sem og almennum og sérstökum lækkunarheimildum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fjárhæð gatnagerðargjalds nemi 15% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987 um vísitölu byggingarkostnaðar. Er þetta sama hlutfall og markar hámark gatnagerðargjalds í núgildandi lögum. Til að auka fyrirsjáanleika og gegnsæi er í frumvarpinu hins vegar gert ráð fyrir því að hvert sveitarfélag setji sér sérstaka samþykkt eða gjaldskrá þar sem fjárhæð gatnagerðargjalds er afmörkuð sem hlutfall af fyrrnefndum grunni. Í samræmi við gildandi réttarástand er sveitarfélögum veitt heimild í frumvarpinu til að ákveða mishátt gatnagerðargjald fyrir einstakar tegundir húsnæðis á grundvelli almennra lækkunarheimilda. Að lokum er sveitarfélögum einnig veitt heimild í frumvarpinu til að lækka innheimt gatnagerðargjald í einstökum tilvikum.

Frumvarp til laga um gatnagerðargjald

Lög um gatnagerðargjald nr. 17/1996

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 415/2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta