Hoppa yfir valmynd
18. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp um breytingu á lögheimilislögum

Félagsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi á Alþingi um breytingu á lögum um lögheimili og skipulags- og byggingarlögum.

Frumvarpið er byggt á tillögum starfshóps sem í áttu sæti fulltrúar frá umhverfisráðuneyti, Skipulagsstofnun, Þjóðskrá, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneyti. Óformlegt samráð var haft við fulltrúa Landssamtaka sumarhúsaeigenda um efni frumvarpsins. Starfshópnum var meðal annars falið meta áhrif dóms Hæstaréttar frá 14. apríl 2005 í máli nr. 474/2004 varðandi búsetu í frístundabyggð á þjónustuhlutverk sveitarfélaga og fara yfir tengsl lögheimilislaga við ákvæði annarra laga og reglugerða sem kveða á um skyldur sveitarfélaga gagnvart íbúum sínum, kröfur til mannvirkja og skipulag búsetu.

Niðurstaða Hæstaréttar í áðurnefndum dómi var sú að sveitarfélaginu Bláskógabyggð hefði ekki verið heimilt að synja fjölskyldu um skráningu lögheimilis í sumarhúsi. Vísaði Hæstiréttur til þess að stefndu nytu í skjóli 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar réttar til að ráða búsetu sinni, enda stangaðist slík ákvörðun ekki á við lög og þau hefðu að einkarétti yfirráð yfir þeim stað. Í dóminum kemur enn fremur fram að ekki hafi verið vísað til haldbærra heimilda sem sett gætu skorður við því að stefndu ættu heimili í sumarhúsi á svæði, sem ætlað væri fyrir frístundabyggð, eða fælu í sér að búsetu mætti ekki taka upp í húsi nema það fullnægði nánar tilgreindum kröfum um frágang eða búnað.

Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við 1. gr. lögheimilislaga ákvæði um að dvöl í húsnæði sem byggt er á svæði sem skipulagt er sem frístundabyggð geti ekki talist ígildi fastrar búsetu og að skráning lögheimilis í slíku húsnæði verði af þeirri ástæðu óheimil. Til að tryggja skýrleika laga eru jafnframt lagðar til breytingar á skipulags- og byggingarlögum þar sem einkum er fjölgað orðskýringum. Í raun felst í þessari tillögu að fest verði í sessi það réttarástand sem menn töldu að væri fyrir hendi þar til dómur Hæstaréttar féll 14. apríl 2005 í máli nr. 474/2004.

Sú lagabreyting sem lögð er til í frumvarpinu mun ekki hafa þau áhrif að útilokað verði að fá samþykki fyrir lögheimilisskráningu í skipulagðri frístundabyggð ef viðkomandi einstaklingur á þar fasta búsetu. Slík skráning getur hins vegar ekki farið fram fyrr en sveitarstjórn hefur samþykkt breytingu á skipulagi fyrir viðkomandi svæði. Jafnframt útilokar breytingin ekki skráningu lögheimilis í sumarhúsum sem standa utan skipulagðrar frístundabyggðar ef viðkomandi einstaklingur á þar fasta búsetu.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og skipulags- og byggingarlögum

Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 474/2004



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum