Hoppa yfir valmynd
19. október 2006 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna

Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra

á aðalfundi LÍÚ fimmtudaginn 19. október 2006

Það er sagt að enginn sé eyland. Það er rétt í þeim skilningi að ákvarðanir eins í hinum alþjóðlega viðskiptaheimi sem sjávarútvegurinn hrærist hafa áhrif á aðra. Þess vegna er okkur ljóst að þegar ákvarðanir eru teknar verðum við að hafa þetta í huga. Það skerðir ekki rétt okkar. Þvert á móti. Þátttaka í alþjóðlegu starfi er forsenda þess að vel takist til hjá útflutningsþjóð. Við þurfum að móta umræðuna, hafa áhrif á niðurstöðuna og setja meginsjónarmið okkar fram með skýrum hætti. Reynslan hefur líka kennt okkur að við erum mjög gildandi í umræðu á sviði auðlindanýtingar og sjávarútvegsmála og til okkar er horft á þeim vettvangi. Um þessar mundir erum við einmitt að fást við fjölmörg mál á sviði sjávarútvegsins sem hafa þessi  alþjóðlegu einkenni og raunar á það við um ótrúlega margt sem er á málasviði því sem ég fæst við þessi misserin.

 

Sautjándi október sl. var góður dagur. Þann dag undirritaði ég reglugerð um að hvalveiðar í atvinnuskyni skyldu hafnar að nýju. Þetta var ekki stórt skref í sjálfu sér. Heimildin kvað á um veiðar á 9 langreyðum og 30 hrefnum á þessu fiskveiðiári. En þetta var stórt skref í þeim skilningi að veiðar í atvinnuskyni hafa legið niðri um 20 ára skeið. Ákvörðunin nú felur í sér að við brjótum ísinn, ljúkum óvissu sem grúft hefur yfir þessari sjálfsögðu auðlindanýtingu okkar og hrindum af stað veiðum í anda þeirrar sjálfbæru nýtingarstefnu sem við höfum haft að leiðarljósi.

 

Stefna íslenskra stjórnvalda hefur í rauninni verið afar skýr. Við höfum talið það sjálfstæðan rétt okkar að nýta sjávarspendýrin líkt og aðra nytjastofna á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og þannig að veiðin færi fram með sjálfbærum hætti. Í sjálfu sér hefur ekki ríkt mikill ágreiningur um þetta mikilvæga markmið. Enda hefur það verið kjarni okkar stefnu varðandi auðlindanýtingu. Aðrar ástæður hafa ráðið því að hvalveiðar í atvinnuskyni hafa ekki hafist að nýju fyrr en nú.

 

Óhætt er að segja að hin pólitíska stefnumótun hafi komið fram með samþykkt Alþingis frá 10. mars 1999 þar sem kveðið var á um að hvalveiðar skuli hefjast hið fyrsta hér við land. Æ síðan hefur verið unnið samkvæmt þessari stefnumótun. Kynning hefur staðið yfir árum saman á málstað Íslendinga, við gengum í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju og reyndum að fá nægjanlega samstöðu á grundvelli málefnalegrar vinnu um skynsamlegar hvalveiðar á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar. Sú viðleitni hefur ekki borið nægjanlegan árangur, þó svo að viss tímamót hafi orðið með samþykkt ráðsins nú í sumar. Hin svo kallaða St. Kitts og Nevis yfirlýsing sem samþykkt var á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins nú í sumar felur í sér að nýta beri hvalastofna með sjálfbærum hætti á grunni vísindalegrar ráðgjafar og að bann við hvalveiðum í atvinnuskyni sé því óþarft. Þessi samþykkt markar ákveðin straumhvörf, en er þó ekki ein og sér nægjanleg til þess að Alþjóðahvalveiðiráðið aflétti banni sínu við veiðum.

 

Það er næsta óumdeilt að stofnar langreyðar og hrefnu hér við land séu í góðu ásigkomulagi og vísindanefndir Alþjóðahvalveiðiráðsins og Norður Atlantshafssjávarspendýraráðsins, NAMMCO, hafa kveðið upp úr um að svo sé. Talningar sýna að 44 þúsund hrefnur eru á landgrunnssvæði Íslands og 23 þúsund langreyðar. Hafrannsóknarstofnunin leggur til að veiðar á hrefnu verði allt að 400 dýr á ári, en hvað langreyðina varðar, verði veidd 150 dýr árlega séu veiðarnar á hefðbundinni slóð, en 200 dýr sé veiðunum dreift innan heildarútbreiðslusvæðis stofnsins.

 

Með hrefnuveiðum í vísindaskyni árið 2003 má segja að stórt skref hafi verið stigið í átt að því sem Alþingi samþykkti vorið 1999. Við fórum varlega í upphafi en höfum aukið veiðarnar árlega æ síðan. Nú í sumar gaf ég út 50 dýra upphafskvóta og jók þær heimildir upp í 60 hrefnur síðar í sumar. Þetta eru því orðnar umtalsverðar veiðar og nú standa einungis um 40 dýr eftir af þeirri upphaflegu vísindaáætlun sem við hófum árið 2003. Við getum því talað af nokkurri reynslu um hvernig okkur vegnar í sambúð hvalveiða og annarra atvinnugreina og gagnvart umheiminum.

 

Reynslan er ólygnust. Mótmæli vegna þessara veiða hafa varla verið merkjanleg. Þau urðu í upphafi veiðanna, rétt eins og núna við upphaf þessara veiða. En smám saman dró úr mótmælunum. Viðbrögðin sem urðu við upphaf vísindaveiðanna í sumar voru vart mælanleg. Þegar kvótinn var aukinn í sumar glitti hvergi í nokkur mótmæli. Miðað við hrakspárnar hefði þó mátt ætla að veiðar á 60 hrefnum hefðu áhrif og kölluðu á viðbrögð. Svo var þó ekki.

 

Ég geri þó ekki lítið úr áhrifum ákvörðunarinnar um veiði nú. Og við skulum búa okkur undir þau viðbrögð. Við eigum hins vegar einn kost og hann er sá að svara með rökum. Þar er staða okkar sterk. Þetta er réttur okkar – og meira en það – það er skylda okkar sem ábyrgrar þjóðar að nýta þessa auðlind okkar og leggja okkur fram um að það sé gert þannig að hámarksafrakstursgetan aukist. Veiðar á þessum fáu dýrum nú breytir ekki miklu um þetta samspil lífríksins, en er þó markvisst skref í þá átt.

 

Vel má skilja að ýmsir þeir sem telja hagsmunum sínum ógnað með hvalveiðum hafi uppi varnaðarorð. Slíkt á ekki að fordæma. Það leggur okkur einfaldlega þær skyldur á herðar að ganga þannig til verka við hvalveiðarnar að við sýnum virðingu þeim sem eru annarrar skoðunar en við sem stutt höfum hvalveiðar hér við land. Það eigum við vel að geta gert og eigum sannarlega að gera.

 

En eitt hlýt ég þó að segja. Við skulum virða gagnstæð sjónarmið í þessari umræðu, en á hinn bóginn gera þá kröfu til gagnrýnenda að þeir tali út frá staðreyndum. Það er til dæmis algjörlega óþolandi í þessu sambandi þegar menn segja í gagnrýni sinni á hvalveiðar, að meiri hagsmunir verði að víkja fyrir minni og eiga þá við að hagur þjóðarbúsins sé betri af því að veiða ekki hval en að veiða hann. Þetta er yfirlætislegt tal. Það gefur auga leið að við viljum stunda hvalveiðar af því að í þeim felast gríðarlegir efnahagslegir hagsmunir. Það hefur verið bent á að afrakstur þorskstofnsins geti orðið allt að fimmtungi minni ef hvalastofnanir væru friðaðir, í stað þess að þeir yrðu nýttir og haldið í 70% af hámarksstærð. Þó að þetta séu frumniðurstöður sem taka beri með fyrirvörum er ljóst að hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi. Það er því ekki að undra að íslenskur sjávarútvegur sé nú einróma í kröfu sinni um að hvalveiðar hefjist að nýju. Gagnstætt því sem áður var, njóta hvalveiðar nú einróma stuðnings greinarinnar. Það er sannarlega fagnaðarefni.

 

Þessi afstaða sjávarútvegsins er mjög í samræmi við þjóðarviljann. Þegar nýleg Gallupkönnun um afstöðu þjóðarinnar til hvalveiða var kynnt, lýsti ég því yfir að segja mætti að eins konar þjóðarsátt væri um að hefja hvalveiðar. Einungis 11,5 prósent þjóðarinnar eru andvíg hvalveiðum og hefur andstaðan minnkað merkjanlega frá því að síðasta könnun var framkvæmd. Næstum þrír af hverjum fjórum landsmönnum eru fylgjandi hvalveiðum og aðrir hafa ekki á því skoðun. Athyglisvert er að stuðningurinn við hvalveiðar er í öllum þjóðfélagshópum, aldurshópum, meðal beggja kynja og um land allt. Sú stefna að hefja hvalveiðar nýtur því óvenju mikils stuðnings þjóðarinnar. Það er sannarlega gott til þess að vita.

 

Kannski má líka merkja þessa jákvæðu afstöðu í stigvaxandi neyslu landsmanna á hvalkjöti. Sala á hvalaafurðum hefur gengið mjög vel á þessu ári. Veiðin annar tæplega eftirspurn og seljendur og veitingahúsamenn merkja mikinn áhuga ungs fólks á neyslu þessarar hollu og góðu afurðar. Það er vel.

 

Þegar við gengum að nýju í Alþjóðahvalveiðiráðið gerðum við fyrirvara varðandi bann ráðsins við hvalveiðum í atvinnuskyni. Þrátt fyrir fyrirvarann, skuldbundum við okkur hins vegar til þess að heimila ekki íslenskum skipum að stunda hvaleiðar í atvinnuskyni fyrir árið 2006 og eftir það að heimila ekki slíkar veiðar meðan framgangur væri í samningaviðræðum innan Alþjóðahvalveiðiráðsins um svo kallað endurskoðað stjórnkerfi fyrir hvalveiðar í atvinnuskyni. Í fyrra var fullreynt. Ekkert miðaði í þessari endurskoðun og ljóst að tiltekin aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins ætluðu sér aldrei að ljá máls á neinni skynsamlegri efnislegri niðurstöðu. Í lok ársfundar Alþjóðahvalveiðiráðsins lögðum við fram yfirlýsingu þar sem því var lýst að enginn framgangur væri og engin von væri um árangur. Á þetta hefur reynt síðar. Ég hef tekið þetta mál upp við bandarísk stjórnvöld, það hefur komið til umfjöllunar á fundum á vegum Alþjóðhvalveiðiráðsins nú í ár og án nokkurs árangurs. Við reyndum okkar besta en höfðum ekki erindi sem erfiði. Og með því að árið 2006 var runnið upp var staðan orðin ljós. Fyrirvari okkar frá árinu 2002 hefur tekið gildi og frá og með síðustu áramótum höfum við því haft óumdeilanlegan rétt til að stunda hvalveiðar í atvinnuskyni.

 

Af þessu má sjá að allt það sem við höfum gert í þessum málum hefur miðað að hinu sama. Pólitísk stefnumótun Alþingis hefur legið fyrir frá árinu 1999. Við höfum stundað hrefnuveiðar í vísindaskyni, m.a. til þess að afla nægjanlegrar þekkingar á mikilvægum þáttum lífríkisins. Við höfum útskýrt málstað okkar á alþjóðavettvangi þar sem áhersla hefur verið lögð á hugmyndafræði hinnar sjálfbæru auðlindanotkunar. Við höfum tekið skrefin varfærnislega en þó ákveðið og sú er einmitt raunin með ákvörðuninni frá 17. október.

 

Við vitum þó að kálið er ekki sopið. Enn á reynslan eftir að leiða í ljós hvernig veiðar ganga, viðtökur á mörkuðum og viðbrögð hérlendis og erlendis. Við höfum hins vegar markað stefnuna skýrar en áður, vitum hvert förinni er heitið og þangað ætlum við að komast.

 

         

Góðir fundargestir.

Eins og ykkur er kunnugt kom hugsanlegt bann við veiðum með botnvörpu á úthöfunum til umræði í New York fyrir skemmstu, í fyrri lotu viðræðna um fiskveiðiályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem þessi hugmynd skýtur upp kollinum. Það er mikil og vaxandi tilhneiging víða í alþjóðasamfélaginu að færa stjórn auðlindanýtingar frá þjóðríkjunum til alþjóðlegra stofnana. Umræða um botnvörpubann er angi af þeim meiði og okkur ber að taka hana mjög alvarlega.

 

Til skamms tíma litið hefði það hugsanlega lítil áhrif á hagsmuni Íslands að slíkt bann í úthöfunum kæmist til framkvæmda. En þá væri tónninn gefinn. Viðbúið er að þá yrði gengið á lagið og seilst lengra. Þess krafist að allar veiðar í botnvörpu yrðu bannaðar jafnt innan sem utan lögsögu ríkja. Ýmis félagasamtök hafa reyndar þegar kynnt áætlanir sínar í þessa veru. Við þetta getum við ekki unað og megum því ekki undir nokkrum kringumstæðum gefa eftir.

 

Við höfum barist hart fyrir nýtingarrétti á auðlindum okkar og við verðum að verja hann með ráðum og dáð. Okkur getur greint á innanlands um ýmsa þætti í þessum efnum en ég hygg að flestir séu sammála um það grundvallaratriði að nýtingarrétturinn sé þjóðanna. Þar sem því verður ekki við komið sé fiskveiðistjórninni skipað á grundvelli svæðisbundinna stofnana þeirra þjóða sem hluta eiga að máli. Þurfi hins vegar að fjalla um þessi mál á alþjóðlegum vettvangi er eðlilegt að það sé gert innan FAO - Matvæla og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það hefur verið stefna okkar og þar er til staðar sú þekking á sjávarútvegsmálum sem nauðsynleg er.

 

Vissulega geta menn bent á neiðkvæð áhrif veiða með botnvörpu. Því á að mæta með viðeigandi hætti á þeim svæðum þar sem það á við. Þetta höfum við gert. Hér við land eru stór svæði lokuð fyrir botnvörpuveiðum. Og eins og ég minntist á í ræðu minni hér fyrir ári síðan þá tóku sjómenn og útvegsmenn höndum saman um að banna veiðar í tilteknum kórallasvæðum sem gætu verið viðkvæm. Hagsmunaaðilar lögðu meira að segja til að svæðin yrðu stærri en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi. Með sama hætti erum við tilbúin til að taka þátt í verndun viðkvæmra svæða á úthafinu, en algert bann við ákveðinni veiðiaðferð er ekki rétta leiðin til þess.  

 

Í seinni lotu viðræðnanna um fiskveiðiályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í nóvember, verður reynt til þrautar að semja um þetta mál. Það er alveg ljóst að af hálfu Íslands verður ekki fallist á bann við botnvörpuveiðum í úthafinu.

 

Það er mikilvægt fyrir okkur að fylgjast grannt með þessari umræðu og taka virkan þátt í henni. Það er alveg augljóst hvað vakir fyrir ýmsum þeim samtökum sem berjast fyrir botnvörpuveiðibanni í úthöfunum. Það er að koma á allsherjarbanni. Það hefur verið og er skýr stefna Íslands að berjast gegn vaxandi tilhneigingu ýmissa félagasamtaka og þjóðríkja að koma á yfirþjóðlegri stjórnun fiskveiða í heiminum. Frá því verður ekki hvikað. Við leggjum áherslu á stjórnun einstakra ríkja og svæðisbundinna stofnana.

 

Annað umhverfistengt mál eru umhverfismerkingar sjávarafurða. Sú spurning gerist æ áleitnari erlendis hvernig við Íslendingar hyggjumst haga þeim málum. Hvarvetna þar sem ég hitti erlenda kaupendur íslenskra sjávarafurða færa þeir í tal hvort ekki eigi að taka upp slíkar merkingar á afurðum okkar. Þetta eru fulltrúar þungavigtarfyrirtækja í greininni og því ber okkur ekki aðeins að leggja við hlustir heldur líka að bregðast við. Tímabært er að gera endanlega upp sig hvert skuli stefna og hvernig. Ég hygg að þessi þrýstingur frá kaupendunum sé fremur til kominn af því að þeir vilja kaupa sér frið fyrir ákveðnum þrýstihópum heldur en að neytendur hafi uppi háværa kröfu um umhverfismerkingar. Hvað sem því líður þá er ljóst að þetta er aðkallandi mál sem taka þarf föstum tökum.

 

Í síðustu viku komu fulltrúar Fiskifélags Íslands á minn fund og gerðu grein fyrir þeirri vinnu sem fram hefur farið af þeirra hálfu á þessu sviði. Okkar hugnast ekki MSC-merkið af ýmsum ástæðum sem óþarft er að tíunda hér. Það er óboðlegur kostur í stöðunni. Markmiðið er að koma með valkost við það og ekki síðri. Til að þessi vinnan geti gengið bæði hratt og vel þurfa allir að leggjast á eitt. Við höfum öll hlutverki að gegna í þeim efnum og nauðsynlegt að greinin leggi þessu máli það lið sem til þarf. Tími umræðunnar er á brátt á enda og við þurfum að móta framtíðarstefnuna.

 

Sjóræningjaveiðar, eða veiðar svonefndra hentifánaskipa, hafa verið mikið til umfjöllunar á síðustu misserum og er það vel. Eins og ykkur er öllum kunnugt hafa verið stundaðar umtalsverðar ólöglegar veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshrygg um árabil, svo nemur tugþúsundum tonna. Þetta kemur illa niður á úthafskarfanum sem stendur illa fyrir og mikilsvert er að verja og byggja upp. Það er þannig óþolandi að horfa upp á ólöglegar veiðar skipa á svæðinu á sama tíma og löglegar veiðar minnka stöðugt. Við Íslendingar verðum í samvinnu við önnur ríki, einkum aðildarríki NEAFC, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að uppræta þessar veiðar.

 

Það má ef til vill halda því fram að ekki hafi verið nóg gert í þessum efnum. Ég vil þó fullyrða hér að á síðustu misserum hefur meira verið aðhafst og meiri árangur náðst í þessari baráttu en áður. En hafa verður í huga að hér er glímt við ólöglega starfsemi. Þeir sem að veiðunum koma leita allra leiða til að stunda þær, koma afurðunum á markað og eru tilbúnir að leggja mikið á sig í þeim efnum eins og dæmin sanna. Á sama tíma eru þau úrræði, eða tæki sem við getum beitt, veik í eðli sínu.

 

Um árabil hafa fimm skip á B-lista NEAFC – svarta listanum – legið vetrarlangt í höfninni í Rostock í Þýskalandi. Ísland hefur ítrekað gert alvarlegar athugasemdir við að skipin hafi fengið að liggja í höfn í aðildarríki ESB, sem er aðili að NEAFC, og að skipin hafi líka ár eftir ár fengið þjónustu til hefja nýja karfavertíð, en hvort tveggja er brot á samþykktum NEAFC. Saga þessara skipa verður ekki rakin frekar hér að öðru leyti en því að vegna staðfestu Íslands var samþykkt nú í sumar á vettvangi NEAFC, að skipum sem væru á svörtum listum væri meinað að koma til hafnar aðildarríkjanna. Þannig má segja að „hurðinni“ hafi verið skellt á eftir þeim en nú reynir á að aðildarríkin framfylgi reglunum, en þær eru auðvitað til einskis nýtar ef þeim er ekki framfylgt. Með þessari samþykkt hefur vigt svarta listans verið aukin. Það á og þarf að hafa verulega íþyngjandi og alvarlegar afleiðingar að lenda á svörtum lista og er ánægjulegt að sjá að það hefur merkjanleg áhrif.

 

Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa gert sjóræningjaútgerðunum erfiðara fyrir. Umskipun úr sjóræningjaskipum í flutningaskipið POLESTAR nú í sumar langt suður í hafi er skýrt dæmi um þetta. Sjóræningjaveiðar eru hnattrænt vandamál og sífellt fleiri ríki og stjórnmálamenn gefa þeim gaum. Það gefur vandamálinu aukið vægi og er ánægjuleg þróun. Orð eru til alls fyrst en mestu máli skiptir þó að framkvæma og á það hef ég lagt ríka áherslu í öllum samtölum mínum við erlenda aðila um þessi mál.

 

Í mjög góðri og árangursríkri samvinnu Landhelgisgæslu Íslands, utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins tókst nú síðla sumars að trufla mjög og tefja siglingu og löndun úr flutningaskipinu POLESTAR. Eftir mánaðarsiglingu, hálfa leið yfir hnöttinn, tókst að koma í veg fyrir löndun úr skipinu í þrígang, tvisvar í Japan og einu sinni í Suður-Kóreu. Tæpum mánuði eftir fyrirhugaða löndun í Japan var aflanum umskipað í höfninni í Hong Kong. Þótt ekki hafi unnist fullnaðarsigur er POLESTAR gott og skýrt dæmi um hvað hægt er að gera leggist allir á eitt og hverju stjórnsýsla okkar getur áorkað. Það er rétt að nota tækifærið og þakka bæði Landhelgisgæslunni og utanríkisráðuneytinu góða samvinnu sem og ykkar ágætu samtökum sem við höfum og munum að sjálfsögðu áfram vinna náið með í þessari baráttu okkar. Þáttaka ykkar hefur að mínu viti skipt algjörlega sköpum í baráttunni.

 

Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stemma stigu við ólöglegum veiðum. Gera mönnum eins erfitt fyrir og unnt er þannig að komi við pyngjuna. Það er það eina sem menn skilja, því enginn vill standa í óarðbærri útgerð.

 

Mikilvægt er að tryggja og byggja upp þann grunn sem við höfum í þessari baráttu. Annarsvegar er um að ræða starf og vettvang svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana eins og NEAFC, NAFO og ICCAT og hinsvegar okkar eigið lagaumhverfi. Sterkara samstarf og grunnur svæðisbundinna stofnana er af hinu góða. Ekki bara vegna baráttunnar gegn ólöglegum fiskveiðum, heldur ekki síður til að tryggja að svæðastofnanirnar fari áfram með stjórn fiskveiða á úthafinu og séu sterkt mótvægi við tilhneigingu til hnattrænnar fiskveiðistjórnunar. Ísland hefur á þessum vettvangi farið fremst í flokki þeirra ríkja sem leggja megináherslu á hvort tveggja; að styrkja grundvöll og starf svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana sem og að styrkja regluverk þeirra til að uppræta ólöglegar fiskveiðar á úthafinu. Ég geri ráð fyrir að Tómas H. Heiðar fari nánar út þessi atriði í fyrirlestri sínum hér á eftir.

 

Jafnframt þarf að tryggja að innlend löggjöf sé skýr hvað þetta varðar og geri okkur kleift að grípa til þeirra aðgerða sem við teljum viðeigandi hverju sinni. Innan ráðuneytisins er nú til skoðunar hvaða breytingar og viðbætur er rétt að gera á íslenskri löggjöf til að tryggja betur að við getum tekið fast og ákveðið á málum. Stefni ég að því að þær breytingar nái fram að ganga á þessu þingi.

 

Það hefur verið haft á orði, m.a. úr ykkar ranni, að það eina sem dugi sé að taka upp klippurnar góðu og klippa aftanúr þessum andskotum, þá fyrst skilji þeir að okkur er full alvara. Ég get að sjálfsögðu tekið undir að það er aðgerð sem tvímælalaust myndi stugga við þeim. Í þessu sambandi er þó að mörgu að hyggja. Lítil þjóð sem m.a. þarf að geta stuðst við og reitt sig á að þjóðaréttur sé virtur, verður að fara varlega í að taka sér vald utan lögsögu sinnar. Ég vil þó ekki útiloka nein úrræði fyrirfram sem við gætum talið rétt og þarft að grípa til síðar.

 

Ágætu útgerðarmenn

Þau handarverk sjávarútvegsráðherra sem mest og beinust áhrif hafa á sjávarútveginn á ári hverju er ákvörðun hámarksafla einstakra tegunda fyrir hvert fiskveiðiár. Þetta er vandasamt verkefni og leggur mikla ábyrgð á herðar sjávarútvegsráðherrans hverju sinni. Aflaákvörðunin getur verið ráðandi um afkomu þjóðarbúsins í bráð og lengd, einstakra útgerðarflokka, skipa og heilla byggðarlaga. Það skiptir því miklu máli að samviskusamlega sé gengið til verks.

 

Það auðveldar síðan ekki verkið að við erum ekki lengur eyland í þessum efnum. Ákvörðunin getur einnig haft áhrif á markaði okkar. Í fyrsta lagi vegna þess að það hefur áhrif á fiskframboðið á mörkuðunum erlendis. En annað skiptir líka miklu máli. Erlendir fiskkaupendur láta sig varða hvort þeir kaupi fisk sem veiddur er með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Krafan um þetta verður stöðugt háværari og algengari. Íslenskir fiskútflytjendur eru því æ oftar knúðir svara um stöðu fiskstofna, fiskveiðiráðgjöfina, afstöðu stjórnvalda og þar fram eftir götunum. Langtímaáhrifin af þessum þáttum eru því að verða æ þýðingarmeiri fyrir íslenskan sjávarútveg.

 

Það breytir því þó auðvitað ekki, að ákvörðunin er tekin af íslenskum stjórnvöldum. Valdið er okkar. Við viljum hins vegar vera ábyrg fiskveiðiþjóð. Raunar eigum við engan annan kost. Við ætlum okkur að lifa af auðlindunum og það gerum við ekki nema að umgangast fiskveiðiauðlindina þannig að hún skili okkur að minnsta kosti jafn góðum afrakstri í framtíðinni og núna. Þetta kallast sjálfbær auðlindanýting og er grundvallaratriði í allri alþjóðlegri umræðu um sjávarútvegsmál og nýtingu náttúruauðlinda. Þetta er einnig kjarni auðlindastefnu okkar á öllum sviðum; jafnt á sjávarútvegssviðinu, varðandi nýtingu hvalastofna ellegar annarrar auðlindanýtingar.

 

Ég get ekki neitað því að sú ráðgjöf sem fólst í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar frá 3. júní sl. um nytjastofna og aflahorfur og lögð er til grundvallar ákvörðun um hámarksafla olli mér vonbrigðum. Vissulega gátum við lesið það út úr ráðgjöfinni frá því á síðasta ári að ekki mætti búast við aukningu í þorskveiðiráðgjöfinni það fiskveiðiár sem nú er ný hafið. Fréttir af miðunum, frá sjómönnum víða um land, gáfu þó að mínu mati tilefni til að ætla að ekki yrði um að ræða tillögur um niðurskurð aflaheimilda í þorski. Sjómenn höfðu látið vel af aflabrögðum og að fiskurinn væri í miklu æti. Loðnan hafði og gengið hefðbundnari leið til hrygningar en til dæmis í fyrra og hitteðfyrra. Mælingar Hafrannsóknastofnunarinnar voru hins vegar á þann veg samkvæmt þeirri aflareglu sem í gildi var að þær leiddu til tillögu um 11 þúsund tonna niðurskurð.

 

Ég kaus að taka mér all nokkurn tíma áður en ég kunngerði ákvörðun mína. Ég tók það þó strax fram að ég hygðist ekki lækka veiðihlutfallið frá þeim 25% sem gilt hafa. Tímann nýtti ég til margvíslegra viðræðna við fulltrúa hagsmunasamtaka í sjávarútvegi, fjölmarga vísindamenn, einnig utan Hafrannsóknastofnunarinnar, starfandi sjómenn og útvegsmenn og fleiri. Þann 27. júní röskum þremur vikum eftir útgáfu ástandsskýrslunnar kunngerði ég svo niðurstöðu mína. Hún var í meginatriðum svona:

 

Við ákvörðun á leyfilegum heildarafla á þorski á næsta fiskveiðiári er byggt á breyttri aflareglu þar sem aflamark ákvarðast sem meðaltal af aflamarki síðasta fiskveiðiárs og hlutfall af viðmiðunarstofni í upphafi úttektarárs, sem er í samræmi við tillögur aflareglunefndar frá 2004. Áfram er miðað við óbreytt veiðihlutfall, 25%. Ákvörðunin hefur í för með sér lítilsháttar breytingu á heildaraflamarki í þorski frá yfirstandandi fiskveiðiári. Leyfilegur þorskafli á fiskveiðiárinu 2006-2007 verður 193 þúsund tonn, en var á síðasta fiskveiðiári 198 þúsund tonn. Óbreytt aflaregla hefði á hinn bóginn haft í för með sér 187 þúsund tonna afla á núgildandi fiskveiðiári. Við ákvörðun á heildarafla annarra fisktegunda á þessu fiskveiðiári var í meginatriðum byggt á tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar um hámarksafla. Heildarafli á ýsu verður þó óbreyttur frá síðasta fiskveiðiári, 105 þúsund tonn, en tillaga Hafrannsóknastofnunarinnar kvað á um 95 þúsund tonna afla. Þá fól ákvörðunin í sér hækkun á heildaraflamarki nokkurra fisktegunda, m.a. steinbíts og kolategunda, frá tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar.

 

Vissulega orkaði þessi ákvörðun tvímælis. Hafrannsóknastofnunin hafði í raun hvatt til þess að stjórnvöld settu sér markmið um endurreisn þorskstofnsins með því að draga úr heildarafla á þorski. Stofnunin hafði sannarlega lagt til að aflareglu yrði breytt í þá veru sem gert var. Útfærslan  leiddi þó til hækkunar á aflamarki frá því sem óbreytt aflaregla hefði þýtt. Það var klárlega ekki í samræmi við anda þess sem Hafrannsóknastofnunin færði rök fyrir í ástandsskýrslu sinni, það sjá allir.

 

Við nálgumst nú eins konar krossgötur og þurfum að velja okkur leiðina sem við viljum fara til framtíðar. Þorskstofninn okkar er ekki í neinni yfirvofandi hættu, en það er ljóst mál að án breytinga munum við heldur ekki sjá verulega viðreisn hans í fyrirsjáanlegri framtíð. Í þessum efnum eigum við val, sem er meira en margar aðrar þjóðir eiga. Hitt er það, að varla getum við sætt okkur við svo lakan afrakstur til lengri tíma. Það er augljóst að sjávarútvegurinn hefur alla hagsmuni af því að auka afraksturinn með stærri þorskstofni. Tekjurnar myndu aukast, sóknartengdur kostnaður minnka og laun sjómanna, tekjur útgerðar, fiskvinnslu og fiskvinnslufólks vaxa.

 

Við gerum okkur líka öll ljóst að þær tillögur sem fyrir hafa verið lagðar um viðreisn þorskstofnins fela í sér tímabundnar fórnir. Einnig þeir sem ekki leggja trúnað á ráðleggingar fiskifræðinga okkar hjá Hafrannsóknastofnuninni, færa okkur ráð sem fela í sér fórnir á einhverjum sviðum. Þar má nefna tillögur um lokun stórra hafsvæða, frekari skerðingar á afla netabáta vegna sóknar þeirra í stærri fisk, bann eða gríðarlegar takmarkanir á loðnuveiðum, takmarkanir á togveiðum og annað það sem fyrir okkur hefur verið lagt í hinni opinberu umræðu. Það er því engin létt eða ljúf leið til.

 

Það sem lesa má um í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar í ár felur í sér hugmyndir um umtalsverðan niðurskurð hámarksafla í þorski til dæmis um fjögurra ára skeið auk annarra friðunaraðgerða. Stofnunin álítur að með leiðum sem hún nefnir væri hægt að koma hrygningarstofni í þorski upp í 300 þúsund tonn árið 2010 með 90% líkum og 400 þúsund tonn með helmings líkum. Hrygningarstofninn hefur stækkað umtalsvert á síðustu árum, er nú 234 þúsund tonn, en vegna lélegrar nýliðunar árganga 2001 – 2004 er líklegt að hann stækki lítið á næstu árum, sé veitt með sama hætti og núna, að mati Hafrannsóknastofunarinnar.

 

Það er augljóst hvar hagsmunir sjávarútvegsins liggja, - að gefnum þessum forsendum. Þriggja til fjögurra ára niðurskurður í þorskafla gæfi kannski 50% afrakstur í stærri hrygningarstofni til lengri tíma. Að þessu öllu virtu mætti ætla að sjómenn og útvegsmenn stæðu með reidd kröfuspjöldin fyrir framan skrifstofur sjávarútvegsráðuneytisins morgun, kvölds og miðjan dag og krefðust þess að farið yrði að tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar tafarlaust. Engan hef ég þó rekist á í þessum erindagjörðum þá 400 daga eða svo, sem ég hef mætt í vinnu mína í ráðuneytinu. Og hvers vegna?

 

Sannleikurinn er sá að miklar efasemdir eru innan sjávarútvegsins um hina vísindalegu ráðgjöf. Þetta blasir við manni í samtölum við sjómenn og útvegsmenn, þetta kemur fram á fundum hagsmunasamtaka, í skrifum manna og blaðaviðtölum og jafnvel ályktunum sumra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi – en þó hreint ekki allra. Um þetta eru einfaldlega skiptar skoðanir. Menn hafa einfaldlega ekki nægilega sannfæringu fyrir því að hinar tímabundnu fórnir skili sér í viðreisn þorskstofnsins. Svo einfalt er það. Ég er ekki í aðdáendahópi samræðustjórnmála í sjálfu sér, en það er augljóst að meiri umræður vísindamanna okkar og ykkar útvegsmanna þurfa að eiga sér stað. Menn þurfa að dýpka skilninginn, hver á annars sjónarmiðum og nálgast sameiginlega viðfangsefnið betur. Það er algjör forsenda skynsamlegrar niðurstöðu. Við þurfum einfaldlega að leiða fram bestu fáanlegu þekkingu og skynsamlegustu niðurstöðuna.

 

Og svo er það annað. Þess gætir mjög meðal útvegsmanna, að þeir hafi efasemdir um að afraksturinn af tímabundnum fórnum vegna minni fiskafla lendi hjá þeim sem tækju á sig skellinn af lægri aflaheimildum. Verður ekki krafan sú, spyrja menn þegar þorskstofninn réttir úr kútnum, að einhverjir aðrir njóti ábatans. Þarna vakir óttinn um kröfuna um fyrningu aflaheimilda, eða þær hugmyndir að fiskveiðirétturinn sé betur kominn hjá öðrum en þeim sem nú hafi hann með höndum. Þetta er eðlilegur ótti, þótt sannarlega voni ég að hann muni reynast ástæðulaus. Stjórnvöldum ber að draga úr óvissunni varðandi sjávarútveginn, nægileg óvissa ríkir þó samt þegar menn þurfa að sækja lífsbjörgina í greipar Ægis konungs. Þess vegna kvað ég mjög afdráttarlaust upp úr um afstöðu mína þegar ég varð sjávarútvegsráðherra. Meginlínurnar varðandi fiskveiðiréttinn hafa verið dregnar og við eigum að virða þær.

 

Vandinn sem við stöndum einnig frammi fyrir er líka sá að við höfum myndina ekki nægjanlega skýra fyrir framan okkur. Sannarlega hefur mikið verið gert til þess að kortleggja þá fiskifræðilegu stöðu sem við stöndum frammi fyrir, ekki síst varðandi þorskstofninn sem ég hef gert að meginumræðuefni. Í þeim efnum hygg ég að við höfum ekki svo miklu við að bæta til þess að geta tekið afstöðu þó svo að skoðanir séu í sjálfu sér skiptar.

 

Um aflaregluna hefur verið fjallað ítarlega í skýrslum á umliðnum árum. Þau mál eru mjög haldbær og frekari skýrslugerð breytir ekki miklu fyrir okkur. En þrátt fyrir þetta er myndin ekki nægjanlega skýr. Við þekkjum ekki nægjanlega vel afleiðingarnar fyrir þjóðfélagið, hagkerfi okkar. Hvað þá sjávarbyggðirnar, einstakar útgerðir og svo framvegis. Það er þó forsenda þess að við getum tekið afstöðu til þeirra leiða sem koma til greina varðandi framtíðarstefnumótun gagnvart þorskstofninum. Gætum að því að óbreytt ástand hefur líka tilteknar afleiðingar í för með sér. Breytingar leiða til annarra afleiðinga; annars vegar til lengri tíma, hins vegar til skemmri tíma. Þetta þurfum við að geta virt fyrir okkur áður en við tökum ákvarðanir til framtíðar.

 

Það var einmitt af þessum ástæðum sem ég tók þá ákvörðun í lok júnímánaðar sem hefði í för með sér lágmarksbreytingu, sem byggði á þeirri aflareglu sem menn höfðu orðið ásáttir um að leggja til og sem hefði sem minnsta röskun í för með sér fyrir sjávarútveginn og þjóðarbúið. Þetta var engin grundvallarstefnubreyting heldur var ég að búa í haginn fyrir frekari upplýsingaöflun og umræðu.

 

Því ákvað ég að fela Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera sérstaka úttekt á þjóðhagslegum áhrifum af breyttri aflareglu og skoða áhrif af mismunandi veiðihlutfalli á þorski. Tryggvi Þór Herbertsson forstöðumaður stofnunarinnar hefur yfirumsjón með verkinu. Ætlunin með þessu verki er að varpa ljósi á áhrif þess að breyta aflareglu og veiðihlutfalli eins og settar hafa verið fram hugmyndir um. Verða áhrifin metin jafnt til lengri og skemmri tíma fyrir efnahagslífið í heild, sjávarútveginn, einstök fyrirtæki, útgerðarstaði og landsvæði svo dæmi séu tekin.

 

Með þessu er reynt að leggja í púkk til framtíðar. Við eigum sem betur fer sjálf val. Það er enginn sem getur tekið fram fyrir hendurnar á okkur. Engir kommisarar frá Brussel geta slegið á fingur okkar, þorskstofninn okkar er ekki heldur í því ástandi að við þurfum að örvænta, ólíkt nágrönnum okkar á Bretlandseyjum sem þessa stundina virðast þó mestar áhyggjur hafa af veiðum fáeinna hvala hér við land. Þar leggur Alþjóðahafrannsóknaráðið til fimmta árið í röð að enginn þorskur verði veiddur  úr Norðursjó. Ólíku er því saman að jafna ástandinu þar og hér. Það skyldi þó ekki vera að sameiginleg fiskveiðistefna ESB hafi sitt að segja um hve litlu hefur verið áorkað þarna? Okkur hefur farnast betur en viljum að vonum auka afrakstur þorskstofnsins. Í því skyni þurfum við að koma okkur saman um leiðir. Þess vegna hef ég í þessari ræðu hvatt til öflugri umræðu útvegsmanna, sjómanna og vísindamanna. Og við þurfum að gera okkur ljósa grein fyrir afleiðingum hugsanlegra leiða og í því skyni hef ég hrint úr vör þeirri vinnu sem Hagfræðistofnun hefur nú með höndum og ég hef gert grein fyrir. Það er von mín að þessi vinna skili okkur fram á veginn til hagsbóta fyrir íslenskan sjávarútveg.

 

Góðir útvegsmenn.

Ég vil í lok ræðu minni þakka ykkur fyrir farsælt og gott samstarf. Ég vil leggja á það áherslu í starfi mínu að eiga gott og mikið samstarf við hagsmunaaðila. Það er að mínu viti forsenda almennilegs árangurs í þágu sjávarútvegsins. Því vænti ég þess að áfram megi ég njóta afraksturins af góðri samvinnu við útvegsmenn og aðra þá sem að sjávarútvegi starfa, jafnt í bráð sem í lengd.

 

 

 

 

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta