Hoppa yfir valmynd
19. október 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálaráðherra í Brussel

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 27/2006

Fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, átti í gær og í dag fundi með þremur framkvæmdastjórum Evrópusambandsins, þeim Joaquín Almunia, sem fer með efnahagsmál, Lasló Kóvaks sem fer með tolla- og skattamál og Dalíu Grybauskaité sem fer með fjármál sambandsins.

Tilgangur fundanna var að ræða um stefnumál og þróun sambandsins á þessum sviðum. Auk þess heimsótti ráðherrann Eftirlitsstofnun EFTA og fékk kynningu á starfseminni sem felst í að fylgjast með framkvæmd samningsins um evrópska efnahagssvæðið hjá Íslandi, Noregi og Lichtenstein.

Árni M. Mathiesen og Joaquín Almunia

Joaquín Almunia og Árni M. Mathiesen

Á fundinum með Joaquín Almunia var farið yfir þróun efnahagsmála um þessar mundir og horfur á næsta ári og til lengri tíma. Rætt var um skipulagsbreytingar sem aðildarríkin vinna að í samræmi við svokallað Lissabon-ferli, til að bæta samkeppnishæfni ríkjanna, en Ísland er þátttakandi í ýmsum verkefnum sem tengjast því. Að lokum ræddu þeir um stöðu, þróun og stjórntæki efnahagsmála í ríkjum með tilliti til þess hvort þau eru aðilar að myntbandalagi Evrópu eða ekki.

Árni M. Mathiesen og Laslo Kóvak

Lasló Kóvak og Árni M. Mathiesen

Á fundinum með Lasló Kóvaks var einkum rætt um hugmyndir um að samræma álagningarstofna vegna skattlagningar fyrirtækja innan sambandsins, þótt skattprósentur verði mismunandi eftir ríkjum. Það hefur marga kosti í för með sér að samræma álagningarstofna, þótt að ýmsu þurfi að hyggja. Sú ráðstöfun gæti auðveldað litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi að stunda viðskipi í öðrum löndum og því er nauðsynlegt að fylgjast grannt með og taka þátt í þróunarstarfi á þessu sviði. Einnig ræddu þeir um þróun skattlagningar almennt, en stefna Evrópusambandsins er að skattar leggist fremur á neyslu en framleiðslustarfsemi.

Árni M. Mathiesen og Dalía Grybauskaité

Árni M. Mathiesen og Dalía Grybauskaité

Á fundi fjármálaráðherra og  Dalíu Grybauskaité var rætt um fjárlagagerð og fjárlög Evrópusambandsins, en þau eru um 1% af vergum þjóðartekjum ríkjanna innan þess.  Þau fara að stærstum hluta í styrki til  landbúnaðar og til uppbyggingar á fátækum svæðum innan sambandsins. Fjárhagsáætlun Evrópusambandsins fyrir árin 2007-2013 liggur fyrir og myndar ramma um útgjöld þess.

Gert er ráð fyrir að hún standi óbreytt út tímabilið þótt eitthvað kunni að færast milli ára. Íslendingar taka þátt í ýmsum verkefnum með sambandinu og taka þátt kostnaði við þau. Þar vega þyngst,  sjöunda rammaáætlun í rannsóknum og framlög í Þróunarsjóð EFTA,  en Evrópusambandið fer fram á að þau verði aukin í tengslum við breytingar á samningum um Evrópska efnahagssvæðið vegna inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu í byrjun næsta árs.

  • Hér fylgir einnig viðtal við Árna M. Mathiesen frá Viðskiptafréttastöðinni Bloomberg - viðtalið (WMV 3,76 MB)


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta