Hoppa yfir valmynd
20. október 2006 Dómsmálaráðuneytið

Fullkomið Tetra fjarskiptakerfi fyrir öryggis- og neyðarþjónustu um allt land

Árni Mathiesen fjármálaráðherra, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra gengu í dag frá samkomulagi við 112 hf. um stofnun nýs fjarskiptafyrirtækis, Öryggisfjarskipti ehf., sem mun byggja upp og reka fullkomið Tetra fjarskiptakerfi fyrir öryggis- og neyðarþjónustu um allt land.

Fréttatilkynning frá Fjármálaráðuneyti

Árni Mathiesen fjármálaráðherra, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra gengu í dag frá samkomulagi við 112 hf. um stofnun nýs fjarskiptafyrirtækis, Öryggisfjarskipti ehf., sem mun byggja upp og reka fullkomið Tetra fjarskiptakerfi fyrir öryggis- og neyðarþjónustu um allt land.

Gert er ráð fyrir að uppbyggingu kerfisins ljúki næsta vor. Gengið var frá samkomulaginu við setningu ráðstefnunnar Björgun 2006 og við sama tækifæri gerði nýja fjarskiptafyrirtækið samning við Slysavarnafélagið Landsbjörg um notkun kerfisins. Allir helstu viðbragðsaðilar í landinu hafa lýst yfir vilja til að nota það.

Samkomulagið er gert í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september síðastliðnum um ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins en þar var uppbygging Tetra kerfisins kynnt. Neyðarlínan, 112, eignaðist Tetra kerfið á árinu 2005 en það hefur hingað til aðeins þjónað viðbragðsaðilum á suðvesturlandi, Akureyri og Ísafirði. Með þeirri endurnýjun og uppbyggingu sem framundan er munu Íslendingar eignast fullkomnasta fjarskiptakerfi fyrir öryggis- og neyðarþjónustu sem völ er á. Kerfið mun þjóna öllu landinu og gegna lykilhlutverki við leit og björgun.

Nýja fjarskiptafyrirtækið er að mestu í eigu ríkissjóðs en 112 hf. á einnig hlut í fyrirtækinu og annast rekstur þess. Tetra kerfið byggist á stafrænni útfærslu og fjarskiptastöðlum sem sérstaklega eru gerðir fyrir fjarskipti neyðar- og öryggisþjónustu, svo sem hjá lögreglu, slökkviliðum og björgunarsveitum. Kerfið mun einnig henta orkufyrirtækjum, Vegagerðinni og sambærilegum aðilum vel. Unnt er að veita fleirum aðgang að kerfinu en þó þannig að neyðar- og öryggisaðilar hafi jafnan forgang. Við neyðaraðstæður er unnt að útiloka aðra en þá sem nauðsynlega þurfa að nota kerfið.

Kostir Tetra eru fjölmargir. Það er langdrægt og í senn hóptalkerfi og sími. Allir sem koma að björgunaraðgerðum geta verið á sömu talhópum án aðildar utanaðkomandi aðila. Upplýsingar geta því borist hratt og vel og stjórnun og samhæfing aðgerða verður markvissari en ella. Unnt er að ferilvakta öll farartæki og mannskap og fylgjast þannig með aðgerðum af meiri nákvæmni en áður, auk þess sem ferilvöktun getur stytt viðbragðstíma verulega.

Samið hefur verið við Motorola um kaup á nýjum miðbúnaði sem er mun fullkomnari en núverandi búnaður. Um 150 sendar verða settir upp víðs vegar um landið í vetur og sem fyrr segir er gert ráð fyrir að taka megi nýja kerfið í notkun næsta vor.

Nánari upplýsingar: Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, helst á Grand Hótel Reykjavík að athöfn lokinni, um kl. 11.30-12.00.

Reykjavík 20. okbóber 2006

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta