Stefnt að einföldun leyfisveitinga
Smíðað hefur verið nýtt lagafrumvarp um veitinga- og gististaði og skemmtanahald sem einfalda á framkvæmd leyfisútgáfu fyrir rekstur á þessum sviðum. Unnið hefur verið að samningu frumvarpsins hjá dómsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti. Hér með er leitað eftir umsögnum hagsmunaaðila og annarra sem telja sig málið varða og er frestur til að senda inn athugasemdir til 3. nóvember næstkomandi.
Nýjum lögum á þessu sviði er ætlað að koma í stað laga nr. 67/1985, V. og VIII. kafla áfengislaga nr. 75/1998 og laga nr. 120/1947 um heimild til að marka skemmtunum og samkomum tíma. Eru lagðar til verulegar breytingar á lagaumhverfi í þessum atvinnugreinum og leitast við að gera alla útgáfu leyfa einfaldari og skýrari.
Meðal helstu breytinga má nefna eftirfarandi:
• Lagt er til að yfirstjórn mála er varða veitinga og gististaði flytjist til dómsmálaráðuneytisins.
• Lagt er til að lögin taki til sölu gistinga og hvers kyns matvæla, hvort sem eru í föstu eða fljótandi formi, áfeng eða óáfeng.
• Tillaga er gerð um að skilgreiningar veitinga- og gististaða verði einfaldaðar í lögunum og gert ráð fyrir reglugerðarheimild til nánari útfærslu.
• Lagt er til að veiting- og gistileyfi, áfengisveitingaleyfi og skemmtanaleyfi verði sameinuð í eitt leyfi og kallað rekstrarleyfi.
• Lagt er til að leyfisveitingar verði fluttar til lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og sýslumanna á landsbyggðinni. Þar með flyst veiting áfengisveitingaleyfa frá sveitarstjórnum.
• Í tillögunum er áfram gert ráð fyrir starfsleyfi heilbrigðisnefnda og er það skilyrði rekstrarleyfis en hins vegar er lagt til að hægt verði að sækja um slíkt leyfi samhliða umsókn um rekstrarleyfi og sér leyfisveitandi þá um að framsenda umsókn.
• Lagt er til að tryggingar sem handhafar áfengisveitingaleyfis þurfa nú að leggja fram verði afnumdar.
• Lagt er til að skilyrði fyrir leyfi verði eitthvað hert, svo sem eins og skuldleysi við skattinn og tilkynning rekstrar til skattyfirvalda og er það m.a. mótvægi við afnám tryggingaskyldu vegna áfengisleyfa.
• Tillaga er um að umsóknarferlið verði einfaldað og möguleiki á rafrænu ferli. Einnig er lagt til að gagnaöflun takmarkist við umsækjanda og forsvarsmann lögaðila.
• Lagt er til að gildistími rekstrarleyfis verði 4 ár og þar með sé ekki lengur um að ræða mismunandi gildistími mismunandi leyfa.
• Lagðar eru til skýrar reglur er varða breytingar á leyfi og/eða leyfishafa og einnig um brottfall, innlögn, afturköllun og sviptingu rekstrarleyfi – greint á milli tilvika. Jafnframt um synjun leyfis.
• Tillaga er gerð um að endurnýjunarferlið verði einfaldað fyrir þá sem eru með allt í lagi – þarf t.d. ekki að leita umsagna á ný.
• Lagt er til að viðurlög vegna brota verði gerð skýrari og lögreglu fengin heimild til að loka stöðum sem ekki hafa leyfi eða starfsemi er ekki í samræmi við leyfi. Viðurlög vegna brota gegn áfengislögum, um meðferð og neyslu áfengis verði áfram refsivert með sama hætti og nú.
• Lagðar eru til reglugerðarheimildir til nánari útfærslu á lögunum svo sem um umsóknarferli, hvað skal veita umsögn um og skilyrði sem setja má fyrir rekstrarleyfi.
Sjá má lagafrumvarpið (Word - 200KB).